*

fimmtudagur, 20. júní 2019
Innlent 1. júlí 2018 16:05

Frekur á hagsmuni míns fólks

Gylfi Arnbjörnsson, fráfarandi forseti ASÍ, segir aðila vinnumarkaðarins nálgast kjarasamningagerð með öðrum hætti nú en áður.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Gylfi segir kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningsviðræðum ólíka því sem áður var. Gylfi var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Hluta af viðtalinu má lesa hér en viðtalið birtist í heild í Viðskiptablaðinu.

„Í dag erum við hætt að krefjast einhverra tiltekinna atriða í kjarasamningi. Við tökum upp þau vandamál sem koma upp –   til dæmis stöðu erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði, lífeyrisréttindi ungs fólks eða hvað sem kann að koma upp. Svo setjumst við bara yfir það og finnum sameiginlega með atvinnulífinu og oft á tíðum stjórnvöldum niðurstöðu sem allir geta fallist á og leysir vandamálin. Það er norræna leiðin og við eigum mikið samstarf við Norðurlöndin og berum saman bækur um vandamálin og hvernig þau leysa þau. Oft og tíðum er hins vegar lausnin sem við finnum öðruvísi útfærð vegna þess að íslenska vinnumarkaðsmódelið er líka ólíkt hinu norræna. Við gerum meira með kjarasamningi en erum ekki feimin við að tengja það við löggjöf til að loka málinu gagnvart öðrum. Norðurlöndin gera það ekki. Það eru til dæmis ekki allir í Danmörku og Svíþjóð sem eiga rétt til atvinnuleysisbóta – og reyndar ekki nema 65% í Svíþjóð. Þeir vilja hafa þetta með öðrum hætti. Þar er launafólk með félagsaðild að atvinnuleysistryggingasjóði. Við sömdum hins vegar með þeim hætti að það er atvinnulífið sem borgar iðgjaldið til atvinnuleysistryggingasjóðs og fjármagnar kerfið.

Að þessu leyti er ég jú, maður sátta, en við getum líka sagt að við getum aldrei útilokað það sem verkalýðshreyfing að þegar við náum ekki þeirri niðurstöðu sem er ásættanleg að til átaka komi. Það gerði það 2015. Ég taldi þá að við ættum að fara í djúpstæðari átök, meðal annars við stjórnvöld út af skattamálum. Þá tókst ekki samstaða um það. Þannig að þrátt fyrir að vera talsmaður sátta er ég líka frekur á hagsmuni míns fólks. Það þarf líka að standa í lappirnar og segja hingað og ekki lengra. Ég telst til hófsamari afla. Ég er stoltur af því. Ég er ekki mjög herskár. Í Frakklandi voru verkalýðsforingjar mest metnir ef þeir eru herskáir. En þegar þú skoðar hvaða árangri þetta fólk skilar sínum félagsmönnum þá fór oft lítið fyrir því.“

Erum við að sigla inn í þetta umhverfi?

„Það hefur verið hópur manna sem hefur talið félaga minn Vilhjálm Birgisson vera mikinn verkalýðsleiðtoga. En þetta eru ekki menn sem leysa kjarasamninga. Hann hefur breytt öllum krónutölusamningum Starfsgreinasambandsins frá því að hann komst til valda á Akranesi í prósentuhækkun launa uppi í Hvalfirði. Hann hefur alltaf í þeim samningum sem hann er með fyrir utan aðalkjarasamninga, sem eru 80% af hans félagsmönnum, breytt krónutöluhækkun í prósentuhækkun hjá sér. Hans áhersla á krónutöluhækkun felst í því að fá hærri prósentu, sem hann síðan gagnrýnir hjá öðrum þegar ekki tekst að halda línunni með hækkun lægstu launa. En það er ekki hækkun lægstu launa sem hann er að framkvæma. Það er bara meiri launahækkun. Það er ekki það sama. Hækkun lægstu launa felst í því að í lok samningstímabils hafa þeir lægst launuðu hækkað meira en þeir sem betur mega sín. Þá ertu að ná árangri. En ef umræðan er að vera með kröfugerð sem er digurbarkaleg og há, þá er bara að nefna nógu andskoti háa tölu. Það er ekki aðgerð til að hjálpa þeim tekjulægstu. Enda var það niðurstaða Guðmundar J. (Guðmundur Jaki) og þeirra sem voru að skila þessu verkefni í upphafi tíunda áratugarins að sú leið var alltaf þannig að lágtekjufólkið sat eftir. Það eru bara tölur sem sýna það,“ segir Gylfi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is