Frelsi fjölmiðla er hvergi meira en á Íslandi, Finnlandi, Írlandi og Hollandi, samkvæmt nýbirtum lista Reporters Without Borders samtakanna.

Staða þjóðanna á listanum þýðir að engin tilfelli um ritskoðun, hótanir, þvinganir eða refsingar hafa verið tilkynntar í úrtakinu sem listinn var gerður eftir.

Neðst á listanum eru Norður-Kórea, Túrkmenistan, Eritrea, Kúba, Búrma, Kína, Íran og Sádi-Arabía.

Samtökin harma að ástandið sé óbreytt í þeim löndum sem hafa verið neðst á listanum og segja að blaðamenn leggi líf sitt og frelsi í hættu við að upplýsa heiminn um ástandið þar. Samtökin segja að þjóðarleiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-il stjórni fjölmiðlum landsins algerlega.

Þegar listinn var birtur fyrst árið 2002 voru Bandaríkin í sautjánda sæti, en hafa fallið á hverju ári síðan þá og er svo komið að nú eru Bandaríkin í 53. sæti, ásamt Botswana, Króatíu og Tonga.