„Með því að setja upp kvótakerfið í sjávarútvegi hafa íslensk stjórnvöld sýnt eignaréttinum mikla virðingu en það er grundvallarþáttur í góðri nýtingu auðlinda. Þannig er búið að blása lífi í dautt fjármagn með því að það hefur myndast eignarréttur á auðlindinni. Það verður til þess að menn fara betur með hana.“

Þetta segir dr. Tom Palmer frá Cato-stofnuninni í Bandaríkjunum en dr. Palmer var einn af fyrirlesurum á Sumarháskóla RSE (Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál) sem haldinn var á Bifröst um síðustu helgi.

Palmer hefur fylgst með þróun mála á Íslandi í hartnær tvo áratugi og segir Ísland hafa verið mikilvægan þátttakanda í alþjóðakerfinu og þær breytingar sem gerðar hafa verið hér á landi síðustu tvo áratugi hafa orðið til þess að landið er með þeim ríkustu í heiminum í dag.

„Ég tel þó líka að góð nýting sjávarauðlinda hafi komið fjármálakerfinu til góða. Það hefur byggt upp grundvöll fyrir góðu fjármálakerfi en í kjölfar þess að hér var komið á góðu kvótakerfi hefur skapast mikil auðlegð í landinu sem gefur öðrum atvinnugeirum byr undir báða vængi,“ segir Palmer.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .