*

mánudagur, 15. júlí 2019
Fjölmiðlapistlar 11. ágúst 2018 14:29

Frelsið á Facebook

Það er auðvelt að fordæma Alex Jones, en óljós vinnubrögð bjóða heim hættunni á að önnur óvinsæl en mögulega réttmæt sjónarmið verði einnig þögguð niður.

Andrés Magnússon
Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Vestur í Bandaríkjunum er rugludallur, sem heitir Alex Jones, sem sérhæfir sig í alls kyns samsæriskenningum á jaðri einhvers jaðars, svo sem um „sannleikann“ að baki hryðjuverkaárásunum 11. september 2001, og alls kyns vangaveltum um falið vald, hið hulda ríkisvald og launhelgar aðrar. Tómt píp allt saman, en þegar vofa pópúlismans gengur ljósum logum um heim allan, getur slíkt átt upp á pallborðið víða. Þess vegna hefur „fjölmiðill“ hans, sem heitir því lýsandi nafni Infowars, átt talsverðum vinsældum að fagna og þvættingurinn ratað víða á félagsmiðlum. Það er óhætt að segja að í þeirri bylgju falsfrétta, sem riðið hefur yfir á liðnum árum, hafi hann ekki látið sitt eftir liggja við öldurótið.

Á þriðjudag gerðist það hins vegar að Alex Jones og Infowars var hent út af fjölmörgum félagsmiðlum, þar á meðal Facebook, YouTube, Spotify og Apple (en ekki Twitter). Það kann vel að kippa undan honum fótunum fjárhagslega, en svo má auðvitað einnig vera að þessar ráðstafanir verði fylgjendum hans staðfesting um stóru samsæriskenninguna og styrki hann frekar.

Þetta mál hefur orðið mörgum tilefni snarpra skoðanaskipta um tjáningarfrelsið, ekki síst vestanhafs, þar sem rík hefð er fyrir lifandi umræðu um stjórnarskrána og þau réttindi, sem hún veitir og ver. Sú umræða er þó augljóslega á nokkrum villigötum. Einkafyrirtækjum –  hvort sem um er að ræða fjölmiðla eða félagsmiðla – ber engin skylda til þess að veita hverjum sem er vettvang til þess að tjá sig um hvað sem er. Fjölmiðlum er ritstýrt og félagsmiðlar reyna (af misveikum mætti) að sía burt sorann eða það efni, sem þeir ekki telja við hæfi.

Hins vegar er eftirtektarvert að þessi útskúfun Infowars og hinna gölnu hugmynda Alex Jones snerist ekki um tilraun til þess að aftra honum að dreifa falsfréttum, heldur til þess að koma í veg fyrir svonefnda hatursorðræðu. Það er vafalaust af hinum bestu hvötum gert, en vandinn er sá að skilgreiningin á henni er í besta falli þokukennd og henni verður nær óhjákvæmilega beitt nokkuð handahófskennt. Eða eftir vanþóknun og umburðarlyndi. Treysta menn Facebook vel til þess?

***

Það finnst ekki margt málsmetandi fólk, sem er til í að verja Alex Jones. Hann er auðvirðilegur maður, sem sést ekkert fyrir í andstyggilegum ummælum um menn og málefni, og verst fjölmörgum málsóknum fyrir meiðyrði um lifandi sem látið fólk. Meiðyrði eru ekki varin af tjáningarfrelsisákvæðum, hvorki í bandarísku stjórnarskránni (eða hinni íslensku!) né í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Þau má þó ekki frekar en önnur orð banna fyrir fram, en menn þurfa að vera ábyrgir orða sinna. Eins og minnst var á hér í síðustu fjölmiðlarýni. Það eru ör umskipti á lista umfjöllunarefna vikunnar og merkilegt að sjá stjórnmálin verða að aukafréttum. Þar er auðséð hvað veldur, það var verslunarmannahelgin, sem átti athyglina óskipta. Fyrst og fremst þá hvernig myndi viðra, en svo má sjá staðarhaldara í Herjólfsdal, lögguna o.s.frv. Vegagerðin er þar hins vegar fremur vegna hlaups í Skaftárjökli. Síminn sækir ört á viku geta fjölmiðlar verið ábyrgir fyrir dreifingu meiðyrða, rógs eða rangfærslna, og sumir hafa bent á það til þess að skýra þessa ákvörðun félagsmiðlanna.

Það er þó ekkert sérlega haldbær skýring. Facebook þarf enga ástæðu til þess að banna fólk á miðli sínum. Eins og þekkt er hafa m.a. góðkunnir Íslendingar verið bannaðir þar um skamman og langan tíma, sennilega vegna (oft rangra) ábendinga um óviðurkvæmilegt efni á þeirra vegum, en oft virðist geðþótti starfsmanna Facebook ráða miklu, útgefnar reglur eru óljósar, forsendur slíks banns sjaldnast tíundaðar og áfrýjunarkostir nær engir.

Í þessu tilviki tilgreindi Facebook þó óbeint ástæðurnar fyrir útskúfun Infowars í fréttatilkynningu, en þær voru óneitanlega fremur loðnar. Sumsé að myndskeið á einhverjum síðum hefðu brotið í bága við stefnu fyrirtækisins varðandi hatursorðræðu og einelti. Ekki það að Alex Jones hafi orðið uppvís að rangfærslum eða lygi, haft uppi meiðyrði eða flutt falsfréttir, heldur að hann hafi sagt eitthvað í ætt við hatursorðræðu. Án þess að við vitum við hvað er átt, hvort það eigi við um alla þá sem láti sömu skoðun í ljós eða bara Jones og svo framvegis.

Það er áhyggjuefni. Ekki vegna þess að Facebook eða öðrum félagsmiðlum sé ekki heimilt að skilgreina og banna hatursorðræðu eins og þeim hentar, heldur vegna þess að skilgreiningin er óljós og engu ljósara með hvaða hætti henni er beitt. Hugsanlega mjög afmarkað og hugsanlega mjög handahófskennt, en nær örugglega ekki jafnt og með fyrirsjáanlegum hætti. Alex Jones er ekki eini mykjudreifarinn á Facebook og hann hefur fengist við þá iðju um árabil óáreittur (þó það megi heita öruggt að einhverjir hafi kvartað undan honum fyrr).

***

Sem fyrr segir ræður Facebook þessu auðvitað sjálft og þarf ekki að standa neinum reikningsskil um það, nema einhver dragi fyrirtækið fyrir rétt. Ómögulegt er að segja með hvaða hætti það ætti að vera, hvað þá niðurstaðan, en allt er það auðvitað óræðara fyrir það hversu nýtilkomnir félagsmiðlar eru, þeir eru í stanslausri mótun og lagaumhverfið að þessu leyti mjög ómótað, bæði að lögum og dómafordæmum.

Það er hins vegar rétt að velta því fyrir sér. Á umliðnum árum, undanfarinni öld raunar, hefur mikið verið skeggrætt um hið sérstaka hlutverk og eðli fjölmiðla, dagskrárvald þeirra, hliðvörslu og aðkomu þjóðmálaumræðu. Ekki er hægt að segja að menn hafi orðið á eitt sáttir um niðurstöðurnar og voru menn þó að ræða mun afmarkaðri gerð fjölmiðla, sem er ritstýrt.

Eðli félagsmiðla er annað, mun fjölþættara og mörgum sinnum víðtækara. Í Grikklandi hinu forna var rætt um agora, torgið þar sem þjóðmálaumræðan átti sér stað og allir gátu hafið upp raust sína. Það hugtak lifir enn í afleiddri merkingu um þjóðmálaumræðu eða markaðstorg hugmyndanna. Við Íslendingar þekkjum sama fyrirbæri frá Þingvöllum og við þingum enn um hin aðskiljanlegu mál.

Þjóðmálaumræða nútímans á sér hins vegar síður stað á torgum úti, að töluverðu leyti í fjölmiðlum, en sennilega ekki síst í félagsmiðlum eins og Facebook. Menn hópast þar vissulega nokkuð eftir kunningsskap eða búsetu, en það er samt sem áður alþjóðlegt umræðutorg. Það varðar þess vegna fleiri en Mark Zuckerberg og fleiri hvaða reglur gilda um umræðuna þar og hvernig þeim er framfylgt.

Það er auðvelt að fordæma Alex Jones, en þessi óljósu vinnubrögð bjóða heim hættunni á að önnur óvinsæl en mögulega réttmæt sjónarmið verði einnig þögguð niður. 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is