Ísland missir flest stig 182 ríkja sem horft er til í frelsisvísitölu Heritage foundation hugveitunnar og bandaríska blaðsins Wall Street Journal. Við vinnslu vísitölunnar er tekið tillit til þátta allt frá viðskiptastefnu landanna til skattamála, kjarasamninga, lagaumhverfis viðskiptalífsins og eignarréttar.

Frelsisvísitalan er tekin saman árlega en Ísland mælist nú í 44. sæti vísitölunnar með 68,2 stig (af 100 mögulegum) og missir 5,5 stig á milli ára. Ekkert ríki missir jafn mörg stig á milli ára.

Til gamans má geta þess að árið 2006 var Ísland í 9. sæti listans.

Sem fyrr mælist Hong Kong í efsta sæti vísitölunnar með 89,7 stig. Þá er Singapore í öðru sæti, Ástralía í þriðja sæti og Nýja Sjáland stutt á eftir í fjórða sæti. Loks mælist Sviss í fimmta sæti og Kanada í 6 sæti.

Danmörk er eina landið á Norðurlöndum sem nær inn á topp 10 listann yfir frjálsustu ríkin.

Norður Kórea er það ríki sem mælist neðst á listanum, með aðeins 1 stig en Zimbabwe kemur þar næst með 22,1 stig.

Sjá listann í heild sinni

Sjá umfjöllun um Ísland