*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Fólk 4. nóvember 2018 19:01

Frelsun að vera í New York

Pétur Þorsteinn Óskarsson, nýr framkvæmdastjóri Íslandsstofu, segir fluguveiði hreinsa hugann og gefa mikla hvíld.

Höskuldur Marselíusarson
Eftir nám í New York borg í Bandaríkjunum starfaði Pétur Þorsteinn Óskarsson í borginni í nokkur ár. Hann segir fólk annaðhvort elska borgina eða alls ekki en hún búi yfir einstakri orku.
Haraldur Guðjónsson

Nýr framkvæmdastjóri Íslandsstofu, Pétur Óskarsson, tekur við á tímamótum fyrir stofnunina. „Það voru sett ný lög um Íslandsstofu í sumar til að skerpa á hlutverkinu. Það er mjög spennandi að taka við því sem líkja má við hvítan striga sem gerir okkur kleift að teikna upp starfsemina út frá því hlutverki sem okkur er ætlað í lögunum frá grunni,“ segir Pétur.

„Íslandsstofa á að vera þjónustufyrirtæki sem veitir fyrsta flokks þjónustu, hvort sem það er fyrir útflytjendur, ferðaþjónustu eða fjárfesta sem eru að skoða tækifæri á Íslandi. Þegar ég sá auglýsinguna um framkvæmdastjórastarfið þá fannst mér eins og ég hefði verið að undirbúa mig undir þetta starf í tuttugu ár. Þegar ég lauk námi í New York fór ég að vinna sem viðskiptafulltrúi þar í borg fyrir Bandaríkin og Kanada og á þeim 18 árum sem síðan hafa liðið hef ég haft í störfum mínum víða snertifleti við þá starfsemi sem Íslandsstofa sinnir og unnið mjög náið með mikilvægum einingum í starfsemi stofnunarinnar.“

Að einu leyti má segja að minna hafi breyst en ætla mætti, því þrátt fyrir nýjan vinnustað mun Pétur áfram vinna með sínum fyrri yfirmanni, stjórnarformanni Íslandsstofu, Björgólfi Jóhannssyni, fyrrum forstjóra Icelandair Group. Þar hafði Pétur verið yfirmaður samskiptasviðs síðustu árin, en hann segist mikill áhugamaður um málefni lands og þjóðar.

„Ég fylgist stundum alveg vandræðalega mikið með því sem er að gerast, hvort sem það eru stjórnmálin eða þjóðmálin almennt. Áhugamálin eru þess utan svo sem hefðbundin, ég reyni að veiða eins mikið og ég get, bæði silung og lax og tókst mér að fá konuna mína, Huldu Stefánsdóttur myndlistarmann, með í það. Svo koma börnin stundum með en ég á þrjú, þau eru 10 ára, 16 og svo 25 ára. Að vera í fluguveiði hreinsar hugann algerlega, og ég fæ stundum meiri hvíld út úr tveggja daga veiði en tveggja vikna sumarfríi. Það slökknar einhvern veginn á öllum öðrum skynfærum en akkúrat þeim sem maður er að nota í veiðinni sem endurnærir algerlega.“

Eins og áður segir bjuggu þau hjónin í New York um tíma sem Pétur segir einstaka borg. „Hún hefur orku sem engin önnur borg sem ég hef komið til hefur, annaðhvort elskar fólk hana eða alls ekki. Það er mikið menningarsjokk, en líka frelsun í því fyrir Íslending að enginn veit hver þú ert og öllum er alveg sama um þig, en mér fannst það vera kostur.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is