Vegna ástandsins sem nú ríkir í Líbíu og á landamærum Túnis hafa þeir Arnaldur Birgir Konráðsson, framkvæmdastjóri Boot Camp, og Ágúst Guðmundsson frestað ofurhlaupi í Saharaeyðimörkinni.

Til stóð að fara út sl. helgi en hlaupið er alls 112 km og fer fram á fjórum dögum í Túnis.

Sem kunnugt er hefur mikill flóttamannastraumur verið frá Líbíu yfir til Túnis sl. vikur og engin leið að tryggja öryggi almennings sem stendur. Rúmlega 120 þúsund manns hafa safnast saman við landamærin og meðal annars á þeirri leið sem hlaupið fer fram.

Til stóð að hlaupa til styrktar Mæðrastyrksnefndar en undirbúningur að hlaupinu hefur staðið yfir í hálft annað ár. Arnaldur Birgir segir í samtali við Viðskiptablaðið að stefnt sé að því að klára hlaupið að ári.