Framkvæmdir við lagningu Sundabrautar áttu ekki að hefjast á næsta ári. Áform ríkisstjórnarinnar um að draga til baka fjárheimildir til verkefnisins, upp á 1,5 milljarða króna á árinu 2008, breyta því engu. Þetta kemur fram í samtölum Viðskiptablaðsins við Gísla Martein Baldursson, formann umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, þingmann Samfylkingarinnar í Reykjavík og fyrrverandi borgarstjóra. Í lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., frá árinu 2005, er samtals gert ráð fyrir að átta milljörðum verði varið til fyrsta áfanga Sundabrautar. Fénu er, samkvæmt lögunum, dreift á árin 2007 til 2010.


Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008, sem kynnt var í byrjun vikunnar, er hins vegar lagt til að heimild upp á 1,5 milljarða á næsta ári verði dregin til baka. Gísli Marteinn segir að engin ástæða sé til að ætla annað en að peningunum verði haldið til haga fyrir Sundabraut þegar á þarf að halda. "Ef það er rétt sem ráðamenn hafa sagt, að það verði ekki gengið á þessa peninga og að þeir verði til staðar þegar undirbúningi [fyrir lagningu Sundabrautar] lýkur, er ekkert út á þetta að setja," segir borgarfulltrúinn og bætir við: "Allar upphrópanir út af þessu eru bara til þess að fella pólitískar keilur."