Forsvarsmenn íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct hafa sett áform um opnun verslana á hinum Norðurlöndunum á ís í bili. Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar hér á landi sem er með leyfi fyrir uppbyggingu á Norðurlöndunum, segir ástæðuna þá flutning Sports Direct úr Smáratorgi yfir í Lindir.

Verslun Sports Direct við Smáratorg var um 300 fermetrar. Sú nýja er talsvert stærri eða um 2.000 fermetrar.

„Við héldum að gamla búðin yrði nógu stór en síðan sprengdi hún utan af sér og ákveðið var að stækka. Við opnuðum verslunina í nóvember og það tekur að minnsta kosti hálft ár að koma henni í gang. Umfangið er meira en áður og það tekur að læra á búðina,“ segir Sigurður Pálmi.

Verslunarstjórinn hér með þeim betri

Starfsmenn Sports Direct í Kópavogi eru rúmlega 80 talsins. Langflestir eru í hlutastörfum og um 14 í fullum störfum. „Það eru ótrúlega margir starfsmenn búnir að vera þarna frá upphafi og starfsmannaveltan er lítil,“ segir Sigurður Pálmi og leggur áherslu á að verslunin væri lítið án starfsmannanna. Hann minnist sérstaklega á að í fyrra hafi verslunarstjórinn Ásta S. Friðriksdóttir farið á námskeið úti í Bretlandi, það sama og Sigurður Pálmi sótti þar á sínum tíma. „Hún sprengdi alla skala úti, er nú einn besti verslunarstjórinn í keðjunni og nú vilja allir fá hana út.“

Ítarlega er rætt við Sigurð Pálma um rekstur verslunar Sports Direct í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð  hér .