Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ákvað í gær að fresta afgreiðslu tillögu bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar um að Atlantsolíu ehf. verði gefinn kostur á lóð á Skeiði í Skutulsfirði sem ætluð er undir bensínstöð. Þetta kemur fram í frétt á fréttavef Bæjarins besta á Ísafirði. Þar segir að tillaga Samfylkingarinnar hafi verið lögð fram á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku og var að tillögu bæjarstjóra vísað til bæjarráðs. Sem kunnugt er hafa fjögur olíufélög sótt um lóðir undir bensínstöðvar en áratugum saman hafa þrjú olíufélög rekið saman einu bensínstöðina á Ísafirði.

Í frétt Bæjarins besta kemur fram að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar telja að bæjarstjórn eigi að úthluta Atlantsolíu lóðinni og með því verði tryggð raunveruleg samkeppni í sölu á eldsneyti til almennings.

Eins og áður sagði var tillagan tekin fyrir í bæjarráði og var samþykkt að fresta afgreiðslu hennar þar til fyrir liggur álit bæjarlögmanns vegna úthlutana lóða til allra þeirra aðila er sótt hafa um aðstöðu fyrir sjálfsafgreiðslustöðvar. Fyrsta umsóknin af þeim sem nú liggja til afgreiðslu í bæjarkerfinu barst fyrir rúmum tveimur mánuðum.