Enn er beðið eftir að leyst verði úr ágreiningi þeirra sem tóku þátt í stofnfjáraukningu Byrs með lánum frá Glitni. Um fimm hundruð manns eru að baki um 10 milljarða lánum að nafnvirði sem Íslandsbanki heldur nú á.

Fólk sem tók þátt í stofnfjáraukningu Byrs árið 2007 með lántökum frá Glitni hefur fengið 12 mánaða frest til viðbótar á því að greiða upp lán sín. Um er að ræða hátt í 500 manns en nafnvirði lánanna í bókum Íslandsbanka er um 10 milljarðar króna. Ástæðan fyrir viðbótarfrestinum er sú að enn hefur ekki verið til lykta leidd deila lántakenda og Íslandsbanka um hvort veðtryggingar fyrir lánunum nái aðeins til stofnfjárbréfa í Byr eða hvort aðrar eignir þeirra sem tóku lánin séu einnig til tryggingar.

Fyrir dómstólum er nú rekið mál sem litið er á sem prófmál í fyrrnefndu deilumáli. Það hefur enn ekki verið til lykta leitt í héraði og því standa líkur til þess að nokkrir mánuðir muni líða þar til dómafordæmi liggur fyrir um hvernig leysa á úr deilunni. Líklegt er að málið fari fyrir Hæstarétt.

-Nánar í Viðskiptablaðinu