Frestur fjármálafyrirtækja til að skila árshlutareikningum fyrri hluta árs hefur verið framlengdur um einn mánuð. Samkvæmt lögum hafa fjármálafyrirtæki tvo mánuði til að skila árshlutareikningum eftir að tímabili lýkur.

Í svari frá Fjármálaeftirlitinu (FME) kemur fram að í lok júní var óskað eftir ítarlegum upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum í tengslum við möguleg áhrif af dómum Hæstaréttar um gengistryggð lán.

Frestur til að skila upplýsingum var tilölulega stuttur og óskað var eftir staðfestingu ytri endurskoðenda á því hvort lánasamningar væru rétt flokkaðir og reiknaðir. Vegna þeirrar vinnu veitti FME frest til 1. október til að skila hálfsársuppgjöri. Ekki er gerð sú krafa að uppgjör verði staðfest af ytri endurskoðanda.

Af viðskiptabönkunum hafa Íslandsbanki og Arion banki skilað árshlutareikningum.