Viðskiptavinir Icesave hafa nú innan við viku til að taka fjármagn sitt út af reikningum bankans ætli þeir sér að nýta heimabankakerfi bankans en þann 6. janúar mun frestur til þess renna út.

Eftir það þurfa innlánseigendur að fara í gegnum flókið pappírsferli hjá breska fjármálaeftirlitinu til að endurheimta innlán sín en slíkt ferli getur að sögn breska blaðsins The Daily Telegraph tekið allt að sex vikur.

Þrátt fyrir að reikningarnir hafi verið opnir frá því í lok nóvember eiga enn rúmlega sjö þúsund viðskiptavinir eftir að sækja fé sitt til baka.

Breska fjármálaeftirlitið hefur séð um framkvæmd endurgreiðslna en þetta er í fyrsta skipti sem hægt er að millifæra fjármagn í gegnum heimabanka undir slíkum aðstæðum.

Samkvæmt frétt Telegraph hefur breska fjármálaeftirlitið nú þegar greitt út um 3,54 milljarða punda til innlánseigenda en þeir telja um 200 þúsund.

Eins og kunnugt er voru Icesave reikningarnir í eigu útibús Landsbankans í Bretlandi og ullu nokkrum deilum milli íslenskra og breskra stjórnvalda en ágreiningur var uppi um hver ætti að ábyrgjast innistæður Icesave.

Svo fór að bresk yfirvöld ákváðu að lána þeim íslensku fyrir endurgreiðslunni.