Það gæti ráðist í vikunni sem nú er að hefjast hvort Yahoo verður áfram sjálfstætt fyrirtæki eða hvort Microsoft tekst að taka yfir fyrirtækið, óumbeðnir.

Yahoo kynnir uppgjör fyrsta ársfjórðungs á þriðjudaginn, en það verður kannski þeirra síðasta tækifæri á að sýna fram á að fyrirtækið hafi þann styrk sem til þarf til að vera áfram sjálfstætt. Á laugardaginn hins vegar verður þeirra tími útrunninn, en Microsoft hafa sagt að ef þeirra tilboði, upp á 31 Bandaríkjadal á hlut, hefur ekki verið tekið þá muni fyrirtækið snúa sér að hluthöfum og kaupa upp nægilega marga hluti til að geta losað sig við núverandi stjórn Yahoo.

Í frétt Reuters um málið er rætt við nokkra greiningaraðila á Wall Street. Skiptar skoðanir eru um hvort sú aðferð Microsoft að fara í hart er rétta leiðin, en sumir telja að hún fæli stjórn Yahoo frá því að taka yfirtökutilboði. Líklegt er að Microsoft verði að ráðast í fjandsamlega yfirtöku á Yahoo, ætli þeir sér að eignast fyrirtækið, að mati þeirra sérfræðinga sem Reuters ræddi við.