Frestur fjármálaráðherra og Seðlabanka Íslands til að veita samþykki, eða hafna, samkomulagi milli Landsbankans og slitastjórnar gamla Landsbankans, um að greiðslutími skuldabréfa verði lengdur, hefur verið framlengdur til 30. september. Upphaflega átti niðurstaða í málinu að liggja fyrir þann 8. ágúst. Kjarninn fjallar um málið.

Landsbankinn og slitastjórn gamla Landsbankans náðu í maí samkomulagi um breytingu á uppgjörsskuldabréfum með eftirstöðvar að jafnvirði 226 milljörðum króna í erlendum gjaldeyri.

Skuldabréfin voru upphaflega á gjalddaga árið 2018, en ljóst var að það myndi hafa verulega þung áhrif á íslenskt samfélag, þar sem greiðslur í erlendum gjaldeyri á næstu árum vegna bréfanna væru mun meiri en gjaldeyristekjur hagkerfisins myndu ráða við.

Í samkomulaginu milli Landsbankans og slitastjórnarinnar fólst að greiðslutími bréfanna yrði lengdur til 2026. Samkomulagið var þó háð samþykkis Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og Seðlabankans. Niðurstaða átti að liggja fyrir þann 8. ágúst, en ekki tókst að afgreiða málið á þeim tíma. Því hefur fresturinn verið lengdur til 30. september.