Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra útilokar ekki að hann muni leggja fram frumvarp á septemberþingi til að framlengja þann frest sem stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur til að grípa til aðgerða til að jafna mun á eignum og skuldbindingum sjóðsins. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Fresturinn rennur að óbreyttu út 1. október næstkomandi. „Ég tók ákvörðun um að leggja þetta frumvarp ekki fram núna á sumarþinginu í þeirri von að tíminn fram undir lok septembermánaðar myndi nýtast til að finna aðrar leiðir til að taka á þessu,“ segir Bjarni í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að á undanförnum árum hafi menn keypt sér frest og ýtt vandanum á undan sér en finna þurfi varanlega lausn mála.

Bjarni segir ýmsa valkosti í stöðunni en hækkun iðgjaldsins sé þeirra sístur. „Með því að hækka iðgjaldið eru menn að fjarlægjast markmiðið um að jafna lífeyrisréttindin við almenna markaðinn,“ segir hann. Annar valkostur sé að greiða inn á skuldbindingu sjóðsins.