Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrún Media, segir frétt Berlingske Tidende um 1,5 milljarða króna tap á rekstri Nyhedsavisen það sem af er árinu, ekki rétta. Hann segir reikninga Berlingske ekki byggja á staðreyndum og fréttin sé til marks um harðnandi samkeppni á danska blaðamarkaðinum. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.


"Ekki veit ég hvernig þeir komast að þessari niðurstöðu. Hins vegar er rétt að tap Nyhedsavisen var 1,5 milljarðar á síðasta ári, eins og allir geta lesið um í skattframtali fyrirtækisins, og einna helst dettur mér í hug að þeir hafi framreiknað það tap yfir á fyrstu mánuði þessa árs. Það stenst náttúrulega ekki þar sem við þurfti að leggja í stórar fjárfestingar til að koma útgáfunni á fót, fjárfestingar sem ekki þarf að endurtaka í ár," segir Gunnar, sem vill þó ekki upplýsa hvernig reksturinn hafi gengið á árinu. "Við erum í harðri samkeppni og því eru þessar tölur allar trúnaðarmál."


Gunnar segir að félagið hafi áður gefið það út að eigið fé yrði aukið í ár um 350-400 milljónir danskra króna, jafngildi 4 - 4,6 milljarða íslenskra króna. "Þá stefnum við á að félagið skili hagnaði ekki seinna en eftir 3-5 ár," segir Gunnar að endingu.