Að sögn Hannesar Smárasonar, forstjóra FL Group, er að vænta frétta af Sterling flugfélaginu á þessum ársfjórðungi. Hannes sagði að það væri ekki útilokað að Sterling gæti orðið hluti af stærri einingu og væri það eitt þeirra atriða sem félagið væri að skoða.

Þetta kom fram á morgunverðarfundi geriningardeildar Glitnis banka þar sem afkomuspá bankans var kynnt. Hannes var þar sérstakur gestur og kynnti fjárfestingar félagsins og var hann sérstaklega spurður út í fjárfestingu félagsins í Sterling. Hannes sagði að umsnúningur félagsins væri gríðarlegur og mikil bjartsýni ríkti um framtíð þess. - Og eins og kom fram hér að framan þá sagði hann að frétta væri að vænta af félaginu á þessum ársfjórðungi.

Hannes sagði að FL Group væri að vinna að mörgum verkefnum og á mörgum sviðum væri grunnvinnu lokið þannig að félagið gæti farið að gera það sem koma skyldi.

Hann sagðist ekki sjá fyrir sér miklar fjárfestingar á vegum félagsins á Íslandi fyrir utan það sem félagið hefði nú þegar gert. Hann undanskyldi þó ef breytingar yrðu í orkugeiranum og ef fjárfestingatækifæri myndu skapast þar.