Svokallað fríblaðastríð stendur nú sem hæst í Danmörku og talið er að það ná hápunkti þegar fríblað Dagsbrúnar, Nyhedsavisen, kemur út í október næstkomandi.

Því hefur verið haldið fram í dönskum fjölmiðlum að mikið tap muni hljótast fríblaðastríðinu í Danmörku og að öll blöðin muni koma illa út úr því. Því var haldið fram í Politiken fyrir skömmu að tólf milljóna tap sé af rekstri Dato og 24timer á degi hverjum og hefur verið efast um getu Dagsbrúnar til að fjármagna Nyhedsavisen, í kjölfar þess að sérstakur sjóður var stofnaður um útgáfu þess. Í London er nú einnig mikil samkeppni á fríblaðamarkaðnum og eru nú fjögur fríblöð gefin þar út.

Piet Bakker, doktor í fjölmiðlafræði við Háskólann í Amsterdam, hefur verið að skoða þær breytingar sem stóraukin útgáfa fríblaða hefur haft á dagblaðamarkaði undanfarin ár og birtir í breska dagblaðinu The Indepentent lista yfir þau 20 fríblöð sem hafa haft hvað mest áhrif á dagblaðamarkaðinn. Bakker hélt nýverið fyrirlestur um stöðu á danska blaðamarkaðnum á kynningarfundi sem Nyhedsavisen stóð fyrir.

Þau tuttugu fríblöð sem mestu áhrif hafa haft á dagblaðamarkaðinn að mati Bakker:

20minutes
Norski útgefandinn Schibsted stendur að útgáfu 20minutes, sem er gefið út í Frakklandi, Spáni og Sviss. Fleiri blaðamenn starfa á blaðinu en hjá flestum samkeppnisaðilum og eru því fleiri fréttir blaðsins unnar af blaðamönnum þess. 20minutes er mest lesna dagblaðið á Spáni og í Sviss, en mest lesna fríblaðið í Frakklandi.

thelondonpaper
thelondonpaper er nýjasta fríblaðið í London og er gefið út af útgáfufélagi fjölmiðlarisans Rupert Murdoch, sem meðal annars gefur út The Times og götublaðið The Sun. Hönnun blaðsins þykir vel heppnuð, en lesendur munu þó á endanum dæma blaðið eftir innihaldi þess og auglýsendur munu fylgjast með stærð lesnendahópsins. Markhópur thelondonpaper eru lesendur á aldrinum 18 til 34 ára og eru örvæntingarfullar tilraunir blaðsins til að ná til þeirra nokkuð yfirdrifnar, en fullmikið er gert úr dægurmenningu og er vert að spyrja hver hefur svo sem áhuga á að lesa enn eina fréttina um hrakfarir tónlistarmannsins Pete Doherty?

Metro
Associated Newspapers kynnti Metro til sögunnar árið 1999, með það að aðalmarkmiði að koma í veg fyrir að Svíar næðu að hasla sér völl á fríblaðamarkaði í London. Útgáfan reyndist svo arðbær og var blaðið gefið út í níu borgum í Englandi í kjölfar London-útgáfunnar. Metro er dreift til 1,1 milljón lesenda og er stærsta fríblað einnar þjóðar.

London Lite
London Lite vann kapphlaup fríblaða í London, en er í raun keimlíkt Metro og leggur höfuðáherslu á fréttir af þjóðþekktu fólki í skemmtanaiðnaðnum, hneykslismálum og íþróttum. Blaðinu er dreift í 400 þúsund eintökum og er markhópur lesenda London Lite á aldrinum 18 til 34 ára, þó svo að um helmingur lesenda fríblaða sé raunar ekki á þeim aldri.

City AM
Fyrsta viðskiptatengda fríblaðið, City AM, kom út í fyrra. Tíu milljónum punda var varið í stofnsetningu City AM, en á blaðinu starfa fimmtíu blaðamenn, sem er stórmerkilegt í ljósi þess að blaðinu er aðeins dreift í 100.000 eintökum í miðborg London.

Metro International
Sænska fríblaðið Metro International var það fyrsta sinnar tegundar og er nú dreift í 21 löndum í þremur heimsálfum. Velgengni Metro International hefur getið af sé fjölmargar eftirlíkingar um allan heim. Blaðið er gefið út í 18,5 milljónum eintökum á hverjum degi og er því stærsta fríblað heimsins. Blaðið hefur 69 sérútgáfur og getur því boðið auglýsendum að auglýsa á heimsvísu, landsvísu eða á minni svæðum.

Direct Soir
Þrátt fyrir að fjöldi fríblaða í Evrópu sem gefin eru út eftir hádegi hafi dottið upp fyrir, hóf fjölmiðlafyrirtækið Group Bolloré engu að síður útgáfu á Direct Soir í júní síðastliðnum. Blaðinu er dreift í 500 þúsund eintökum og er talið að tap af rekstrinum muni nema 15 milljónum evra fyrsta árið.

Red Eye Chicago
Red Eye Chicago er í raun ekki dagblað, heldur frítt tímarit sem kemur út á degi hverjum í Chicago borg þar sem finna má upplýsingar um verslanir, skemmtistaði, kvikmyndir, veitingahús og fleira. Red Eye er í eigu Chicago Tribune og er nú eina blað sinnar tegundar í Chicago eftir að hafa bolað út samkeppnisaðilanum Red Streak, sem var í eigu Chicago Sun-Times.

Que!
Útgefandinn Recoletos hóf útgáfu á fríblaðinu Que! á Spáni í fyrra og er blaðinu dreift í 900 þúsund eintökum, en 20 Minutos og Metro voru þá þegar með svipaða dreifingu. Que! var með yngri markhóp og var gagnvirkt að því leyti að skrif lesenda á heimasíðu blaðsins eru með aukið vægi.

24timer
Á föstudögum eru 56 blaðsíður í 24timer og eru um helmingur þeirra auglýsingar, en talið er að auglýsingaverð hafi lækkað um allt að 50%. Blaðamennska 24timer hefur einnig beðið álitshnekki, en þegar fótboltaliðið FC Copenhagen komst óvænt upp í úrvalsdeildina þurfti 24timer að sleppa fréttinni vegna þess að blaðið þarf að fara í prentun fyrir átta á kvöldin.

Fréttablaðið
Hundrað blaðsíðna dagblað, sem dreift er ókeypis til heimila alla sjö daga vikunnar, er veruleiki sem Íslendingar búa við. Fréttablaðið var stofnað 2001 og er dreift í meira en 100 þúsund eintökum. Um 70% af blaðaútgáfu á Íslandi er í höndum fríblaðanna Fréttablaðsins og Blaðsins, en dagblaðaáskrift hefur minnkað um 25% síðan árið 2000. Breytingarnar komu verst niður á götublaðinu DV, en Morgunblaðið hefur misst fáa lesendur.

Examiner blöðin
Examiner-blöðunum er dreift í New York, Boston, Philadelphia, Washington og Chicago. Almenningssamgöngur eru ekki eins skilvirk dreifingarleið fyrir fríblöð líkt og víða í Evrópu og er því Examiner dreift í hús í ríkari hverfum borganna. Examiner birta óhikað langar greinar og ritsjórnarpistla sem endurspegla skoðanir eiganda blaðsins.