Framkvæmdastjóri Marks and Spencer ætlar að funda með breska blaðamanninum og sjónvarpstjörnunni Jeremy Paxman í kjölfarið þess að sá síðarnefndi lét í ljós áhyggjur yfir versnandi gæðum nærfata í verslunum fyrirtækisins.

Paxman skrifaði M&S tölvupóst á dögunum þar sem hann kunngjörði vangaveltur sínar um gæði nærfata. Í tölvupóstinum, sem var lekið í breska blaðið Mail on Sunday, segir Paxman meðal annars að nærbuxurnar sem seldar eru í verslunum M&S „veiti ekki lengur nauðsynlegan stuðning" og að sokkarnir slitni mun fyrr en áður, jafnvel á þeim sem klippa táneglur sínar af feikilegri ákefð. Jafnframt segist hann hafa tekið upp málið við allt frá fólki á líkamsræktarstöðinni sem hann sækir og upp í þingmenn sem hann hefur samskipti við, og allir séu á sama máli. Eitthvað þurfi að gera.

Eftir að fréttin barst út tilkynnti talsmaður M&S að Stuart Rose, framkvæmdastjóri félagsins, myndi funda með Paxman um málið, að sögn breska ríkissjónvarpsins, BBC. Talsmaðurinn sagði enn fremur að þótt Paxman hefði rétt á sínum skoðunum væri staðreynd málsins hins vegar sú að gæði nærfata í verslunum félagsins hefðu sennilega aldrei verið meiri.