15,8 milljóna króna tap varð á rekstri Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) á árinu 2010. Fjárhagsáætlun sambandsins fyrir árið hafði gert ráð fyrir 5,5 milljóna króna hagnaði. Mest munaði um 21,4 milljóna króna gengistap sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Þá voru styrkir og framlög til aðildarfélaga KSÍ um 45% hærri en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum.

Hæstu styrkirnir voru til aðildarfélaga, sem léku ekki í Pepsídeild karla, vegna barna- og unglingastarfs upp á 51 milljón króna. Auk þess styrkti KSÍ félög í tveimur efstu deildum karlaknattspyrnunnar um 12 milljónir króna vegna leyfiskerfa og greiddi verðlaunafé „og fleira“ að fjárhæð 20 milljónir króna.

Fá mikið í styrki og framlög

Alls námu rekstrartekjur sambandsins 723,4 milljónum króna í fyrra. Munaði þar langmestu um styrki og framlög annars vegar og tekjur vegna sölu sjónvarpsréttar hins vegar sem námu 80% af rekstrartekjum sambandsins. Þorri styrkjanna, um 81%, koma frá Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) og Alþjóðaknattspyrnusambandinu (FIFA).

Þá munar mikið um lið sem kallast „rekstrartekjur Laugardalsvallar“ sem skilaði 63,6 milljónum króna í kassann. Þorri þeirra tekna er í formi framlaga og styrkja, eða 58,8 milljónir króna. Á móti voru rekstrargjöld vallarins 48,6 milljónir króna.

Tekjur af landsleikjum námu 38,8 milljónum króna og „aðrar rekstrartekjur“, sem eru ekki skilgreindar nánar, voru 42,3 milljónir króna.

159 milljónir í skrifstofuna

Eiginfjárstaða KSÍ er nokkuð sterk og eigið fé þess er jákvætt um 219 milljónir króna. Sambandið á eignir upp á 870 milljónir króna en skuldar 651 milljón króna. Stærsti skuldaliður þess er fyrirframinnheimtar tekjur og fyrirframgreiðslur. Þar er um að ræða greiðslur vegna sölu á sjónvarpsrétti og mannvirkjasjóðs og greiðsla frá UEFA upp á 1,2 milljónir evra, um 190 milljónir króna, vegna framkvæmda við Laugardalsvöll.

KSÍ greiddi 110,5 milljónir króna í laun og launatengd gjöld á árinu 2010. Til viðbótar runnu 48,2 milljónir króna í skrifstofuog stjórnarkostnað. Því var samanlagður kostnaður vegna skrifstofuhalds KSÍ , og þeirra sextán starfsmanna sem störfuðu fyrir sambandið á árinu, 158,7 milljónir króna.

Karlarnir helmingi dýrari

Langstærsti kostnaðarliður KSÍ er A-landslið karla sem kostaði 92,5 milljónir króna í fyrra. Það var nokkuð undir áætlun. Á móti var kostnaður við U-21 landslið karla rúmlega fjórðungi hærri en spáð hafði verið í áætlunum og spilar þar líkast til inn í frábær árangur þess í undankeppni Evrópumótsins og umspilsleikir við Skotland sem tryggði því sæti í úrslitakeppni mótsins. Rekstur A-landsliðs kvenna kostaði 46,2 milljónir króna sem var um tíu milljónum króna minna en áætlað hafði verið að leggja í rekstur þess í fyrra. Því sést að rekstur A-landsliðs karla kostar helmingi meira en rekstur kvennalandsliðsins.