En halda innlán hjá innlánsstofnunum að hækka en frá því í janúar á þessu ári hafa innlán alltaf hækkað á milli mánaða.

Samkvæmt nýjustu bráðabirgðatölum Seðlabankans námu innlendu innlánin um 1.775 milljörðum í lok júlí (nýjustu tölur Seðlabankans ná til lok júlí) og höfðu hækkað um tæpar 70 milljónir króna frá því í maí (eða frá því að Seðlabankinn birti síðast tölur um bankakerfið).

Í lok júlí námu innlán erlendra aðila um 70 milljörðum króna, og höfðu lítið breyst frá því í apríl,  þannig að heildarinnlán í bankakerfi nam því um 1.845 milljörðum króna í lok júlí.

Hlutur heimilanna um 807 milljarðar króna

Af þeim fyrrnefndu 1.775 milljörðum króna sem innlendir aðilar eiga á innlánsreikningum hér á landi nam hlutur heimilanna rúmum 807 milljörðum króna og hafa aldrei verið hærri á árinu. Þannig hækkaði hlutur heimila tæpa 20 milljarða frá því í maí.

Til gamans má geta að innlán innlendra aðila hafa aukist um tæpa 300 milljarða frá því í september í fyrra en mesta aukningin varð í október, sem eflaust mun lifa djúpt í minningu margra, þegar innlán hækkuðu um 177 milljarða.

Mesta aukningin í gengisbundnum innlánum

Sem fyrr er stærsti hlutur þessara innlána veltiinnlán í íslenskum krónum eða rétt rúmir 540 milljarðar króna, hafa þó aðeins hækkað um tæpa 8,5 milljarða frá því í maí. Hlutur heimilanna er þó aðeins brot af því, rétt tæpir 139 milljarðar króna.

Mesta aukning frá því í maí var í gengisbundnum innlánum, en staða þeirra í lok júlí var rúmir 67 milljörðum króna og hækkaði um 43 milljarða frá því í maí.

Heimilin leita í verðtryggðan sparnað

Þá er einnig töluverð hækkun á verðtryggðum innlánum, sem hækkuðu um 6,5 milljarða króna frá því í maí. Þar af hafði hlutur heimila hækkað um 3,4 milljarða króna. Innistæður á verðtryggðum reikningum námu þannig í lok júlí 217,6 milljörðum króna, þar af var hlutur heimilanna um 144 milljarðar króna.

Upphæðir á peningamarkaðsreikningum halda einnig áfram að hækka, nema nú um 208 milljörðum króna, o og hafa hækkað um tæpa 18 milljarða frá því í maí. Þar af nemur hlutur heimilanna tæpum 87 milljörðum króna og hefur lítið breyst frá því í maí en hafði farið vaxandi þangað til þá.

Þá hafði einnig orðið aukning á óbundnu sparifé en í lok júlí námu þau innlán um 270 milljörðum króna og höfðu hækkað um 8,2 milljarða frá því í maí. Þar er hlutur heimilanna stærstur eða tæpir 172 milljarðar en hafa þó aðeins aukist um 2 milljarða á tímabilinu.

Athygli vekur að innistæður í bundnu sparifé hafa minnkað um 517 milljónir króna frá því í maí, þrátt fyrir að hlutur heimila hafi hækkað um tæpa 3,6 milljarða á sama tíma. Í lok júlí námu innistæður á bundnum sparireikningum 240 milljörðum króna en þar af var hlutur heimilanna rúmir 155 milljarðar króna.

Mikil lækkun á innlendum gjaldeyrisreikningum

Mesta lækkunin frá því í júlí er þó á innlendum gjaldeyrisreikningum, eða um 19 milljarðar króna. Þar minnkar hlutur heimila aðeins um 1,1 milljarð króna. Eins og greint var frá í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun virðist vera að fyrirtæki séu ekki að leggja erlendar gjaldeyristekjur á innlenda gjaldeyrisreikninga sem kanna aftur á móti að útskýra af hverju krónan hefur ekki styrkst í sumar þrátt fyrir jákvæðan vöruskiptajöfnuð.