Fjölskylda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar var á meðal stærstu skuldara við íslensku bankana, bæði í lok árs 2007 og eins við hrun bankanna.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er birtur listi yfir 20 stærstu skuldara út frá samanlögðum útlánum íslenskra hluta bankanna, þ.e. Glitnis, Kaupþings og Landsbankans. Birt er tafla frá árslokum 2007 og önnur frá septemberlokum 2008.

Stærsti skuldari á báðum tímapunktum er Robert Tchenguiz sem í árslok 2007 skuldaði um 1,2 milljarð evra (113,4 ma.kr.) en í septemberlok höfðu skuldir hans aukist nærri því tvöfaldast og námu rúmum um 2,1 milljarði evra (306 ma.kr.)

Í báðum töflunum er fjölskylda Jóns Ásgeirs meðal 9 stærstu skuldaranna. Í árslok 2007 skuldaði Jón Ásgeir um 1,2 milljarð evra (102 ma.kr.). Móðir Jóns Ásgeirs, Ása K. Ásgeirsdóttir, eiginkona hans, Ingibjörg Pálmadóttir og faðir hans, Jóhannes Jónsson (Jóhannes í Bónus) skulduðu öll upphæðir á bilinu 554-557 milljónir evra (50,5 – 50,8 ma.kr.). Samtals námu skuldir þessara aðila tæplega 2,8 milljörðum evra (um 250 ma.kr).

Í lok september 2008, viku fyrir hrun bankanna, höfðu skuldir fjölskyldu Jóns Ásgeirs þó lækkað umtalsvert í evrum, eða um 670 milljónir evra, en aftur á móti aukist um rúma 53 milljarða í krónum.

Við hrun bankanna nam skuldarstaða Jóns Ásgeirs rúmum 864 milljónum evra (125,7 ma.kr.) og hann hafði færst úr öðru listans yfir stærstu skuldarana niður í það þriðja. Ólafur Ólafsson (Ólafur í Samskip), sem verið hafði í þriðja sæti listans í árslok 2007 var nú kominn í annað sæti en skuldir hans í evrum jukust um tæpar 460 milljónir evra á tímabilinu.

Sem fyrr segir höfðu skuldir fjölskyldu Jóns Ásgeirs minnkað í evrum á því tímabili sem hér um ræðir, frá áramótum 2007 fram að falli bankanna. Í lok september 2008 námu skuldir Ásu K. og Jóhannesar um 430 milljónum evra (62,5 ma.kr.) og skuldir Ingibjargar námu þá um 390 milljónum evra (56,8 ma.kr.).

Skuldir Björgólfsfeðga jukust síðustu 9 mánuði fyrir hrun en Bakkabræður hverfa af listanum

Eins og gefur að skilja eru mörg þekkt nöfn á listanum yfir stærstu skuldarana. Fyrir utan fjölskyldu Jóns Ásgeirs má þar finna fyrrnefndan Ólaf Ólafsson en sem fyrr segir aukast skuldir hans nokkuð síðustu 9 mánuði fyrir hrun. Þá má einnig finna feðgana Björgólf Thor Björgólfsson og Björgólf Guðmundsson. Í árslok 2007 er Björgólfur eldri í 8. sæti listans yfir stærstu skuldarana en Björgólfur Thor í 10. sæti. Samanlagt námu skuldir þeirra um 950 milljónum evra (tæpl. 87 ma.kr.)

Við hrun bankanna höfðu þeir þó báðir færst ofar á listann og voru þá í 4. og 5. sæti. Samanlagðar skuldir þeirra höfðu þá aukist um tæpar 50 milljónir evra og námu tæpum 1 milljarði evra (145 ma.kr.).

Þá vekur einnig athygli að á lista yfir 20 stærstu skuldara landsins í árslok 2007 eru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, sem skulduðu sömu upphæðina, eða um 400 milljónir evra hvor. Við hrun bankanna voru þeir hins vegar ekki á lista yfir 20 stærstu skuldarana.

Hannes Smára grynnkar á skuldum en Wernes bræður keyra skuldirnar upp

Skuldir Hannesar Smárasonar minnka þó nokkuð í evrum á umræddu tímabili. Í árslok 2007 skipaði hann 4. sæti listans yfir stærstu skuldarana þegar hann skuldaði tæpar 570 milljónir evra (61 ma.kr.) en við hrun bankanna námu skuldir hans tæpum 411 milljónum evra (59,7 ma.kr.). Skuldarstaðan breytist þó lítið í krónum á þessum tíma vegna gengishruns krónunnar.

Skuldir Karls Wernerssonar jukust nokkuð á tímabilinu. Í árslok 2007 skipaði hann 19. sæti listans þegar skuldir hans námu tæpum 255 milljónum evra (23,2 ma.kr.). Við hrun bankanna hafði hans hins vegar færst í 12. sæti listans þegar skuldir hans námu rúmum 313 milljörðum evra (45,6 ma.kr.). Þá hafði bróðir hans, Steingrímur Wernersson, jafnframt skipað sér sæti á listanum yfir stærstu skuldarana við hrun bankanna og fór beint í 14. sæti en skuldir hans námu tæpum 295 milljónum evra (42,8 ma.kr.)

Skuldir Pálma taka á loft en Jóhannes hverfur af radar

Skuldir Pálma Haraldssonar, eiganda Fons og Fengs sem meðal annars á Iceland Express, jukust nokkuð á tímabilinu eða um rúmar 200 milljónir evra. Í árslok 2007 skipaði hann 18. sæti listans þegar skuldir hans námu tæpum 237 milljónum evra (34,5 ma.kr.). Við hrun bankanna höfðu þær hins vegar tekið flugið og skilað Pálma í 9. sæti listans þegar skuldarstaða hans nam tæpum 438 milljónum evra (39,9 ma.kr.).

Jóhannes Kristinsson, viðskiptafélagi Pálma, nær þó að fljúga út úr skuldarskýjunum á síðustu mánuðunum fyrir hrun bankanna. Í árslok 2007 námu skuldir hans við íslensku bankanna tæpum 390 milljónum evra (35,4 ma.kr.) en við hrun bankanna er hann ekki á lista yfir 20 stærstu skuldarana.

Magnús Kristins grynnkar á skuldum

Magnús Kristinsson, útgerðarmaður frá Vestmanneyjum og fyrrv. þyrlueigandi, náði að grynnka á skuldum sínum um tæpar 80 milljónir evra á síðustu mánuðum fyrir hrun bankanna. Skuldirnar jukust þó í krónum talið. Í árslok 2007 var hann í 14. sæti listans og skuldaði tæpar 345 milljónir evra (31,4 ma.kr.). Við hrun bankanna var hann kominn niður í 16. sæti listans og námu þá skuldir hans um 266 milljónum evra (38,7 ma.kr.

Þá skipaði Hreinn Loftsson, eigandi Birtíngs, 20. sæti listans í árslok 2007 þegar hann skuldaði rúmlega 250 milljónir evra (23 ma.kr.). Hann var þó ekki á meðal 20 stærstu skuldarana við hrun bankanna.

Verslunarmenn bæta við sig skuldum og útlendingar koma nýir inn

Loks má nefna að skuldir Jóns Helga Guðmundssonar í Norvik og Jákup á Dul Jacobsen í Rúmfatalagernum jukust nokkuð á umræddu tímabili. Í árslok 2007 skipaði Jón Helgi 18. sæti listans þegar skuldir hans námu tæpum 250 milljónum evra (26 ma.kr.) en við hrun bankanna var hann kominn í 11. sæti listans og þá námu skuldir hans um 324 milljónum evra (47 ma.kr.). Skuldir hans jukust því um tæpar 39 milljónir evra á tímabilinu.

Jákup Jacobsen skipaði 17. sæti listans í árslok 2007 þegar skuldir hans námu 306 milljónum evra (28 ma.kr.) en við hrun bankanna hafði hann færst upp í 10. sæti listans þegar skuldir hans námu tæpum 350 milljónum evra (51 ma.kr.)

Loks vekur athygli að á lista yfir 20 stærstu skuldarana við hrun bankanna hafa bæst inn á listann Alisher Burkhanovich Usmanov frá Rússlandi sem þá skuldaði um 237 milljónir evra og Bretinn Kevin Stanford sem þá skuldaði um 215 milljónir evra.

Listi yfir 20 stærstu skuldarana

Í eftirfarandi töflu má sjá 20 stærstu skuldara í loks árs 2007. Upphæðirnar eru birtar í milljónum evra og íslenska upphæðin í milljörðum króna í sviga.

  1. Robert Tchenguiz  1.243,6 (113,4)
  2. Jón Ásgeir Jóhannesson  1.117,9 (102,0)
  3. Ólafur Ólafsson   670,2  (61,1)
  4. Hannes Þór Smárason 568,4 (51,8)
  5. Ása K Ásgeirsdóttir 557,1 (50,8)
  6. Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir 556,3 (50,7)
  7. Jóhannes Jónsson 554,1 (50,5)
  8. Björgólfur Guðmundsson 518,9 (47,3)
  9. Pálmi Haraldsson 437,7 (39,9)
  10. Björgólfur T Björgólfsson 431,2 (39,3)
  11. Lýður Guðmundsson 399,8 (36,5)
  12. Ágúst Guðmundsson 399,8 (36,5)
  13. Jóhannes Kristinsson 388,1 (35,4)
  14. Magnús Kristinsson 344,8 (31,4)
  15. Lóa Skarphéðinsdóttir 311,3 (28,4)
  16. Gervimaður útlönd 310,4 (28,3)
  17. Jákup á Dul Jacobsen 306,0 (27,9)
  18. Jón Helgi Guðmundsson 284,9 (26,0)
  19. Karl Emil Wernersson 254,2 (23,2)
  20. Hreinn Loftsson 251,5 (22,9)

Í eftirfarandi töflu má sjá 20 stærstu skuldara í loks september 2008, viku fyrir hrun bankanna. Upphæðirnar eru birtar í milljónum evra og íslenska upphæðin í milljörðum króna í sviga.

  1. Robert Tchenguiz 2.104,9 (306,2)
  2. Ólafur Ólafsson 1.128,2 (164,1)
  3. Jón Ásgeir Jóhannesson 864,3 (125,7)
  4. Björgólfur Guðmundsson 516,8 (75,2)
  5. Björgólfur T Björgólfsson 481,7 (70,1)
  6. Ása K Ásgeirsdóttir 430,6 (62,6)
  7. Jóhannes Jónsson 429,7 (62,5)
  8. Hannes Þór Smárason 410,6 (59,7)
  9. Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir 390,7 (56,8)
  10. Jákup á Dul Jacobsen 349,8 (50,9)
  11. Jón Helgi Guðmundsson 323,5 (47,1)
  12. Karl Emil Wernersson 313,3 (45,6)
  13. Egill Ágústsson 298,5 (43,4)
  14. Steingrímur Wernersson 294,5 (42,8)
  15. Gervimaður útlönd 288,5 (42,0)
  16. Magnús Kristinsson 266,2 (38,7)
  17. Alisher Burkhanovich Usmanov 237,1 (34,5)
  18. Pálmi Haraldsson 236,9 (34,5)
  19. Lóa Skarphéðinsdóttir 218,3 (31,8)
  20. Kevin Gerald Stanford 214,8 (31,3)

Í skýrslu rannsóknarnefndar kemur fram að skuldirnar eru reiknaðar þannig út að sameiginlegur eignarhlutur hvers einstaklings í fyrirtæki er margfaldaður með skuldum fyrirtækisins. Rétt er þó að hafa í huga að á móti þessum skuldum eru mismiklar eignir eftir því hvaða fyrirtæki og einstaklingar eiga í hlut. Í töflunum er ekki verið að mynda lágmarkseignarhaldi heldur eru útlánin lögð saman í hlutfalli við eignarhluti.

Dæmi um útreikning skuldanna: Ef einstaklingur A á 50% í fyrirtæki X, og X skuldar 2 milljónir, væru skuldir „eignastöðu A“ tvær milljónir sinnum 50% eða ein milljón. Rannsóknarnefndin kallar þetta eiginlega skuldarstöðu.