Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) áætlar að um 4 þúsund milljarða Bandaríkjadala hafi tapast vegna fjármálakrísunnar sem nú ríður yfir aljóðleg fjármálakerfi en auk þess verði fjármálakerfi flestra ríkja vönkuð um komandi vegna þessa. Þá gerir sjóðurinn einnig ráð fyrir að þurfa allt að 1,7 þúsund milljarða dali í aukafjárveitingar á næstu 2 árum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu AGS um alþjóðleg fjármálakerfi en AGS og Alþjóðabankinn halda árlega vorfund sinn í Washington í vikunni. Á fundi 20 helstu iðnríkja heims, sem fram fór í Lundúnum fyrr í þessum mánuði, hétu ríkin því að auka eignfjármagn AGS um 750 milljarða dali.

Í skýrslu AGS segir einnig að þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda ýmissa ríkja til að styðja við fjármálakerfi hvers ríkis sé ljóst að framundan sé „hægfara og sársaukafullur“ leiðangur sem felst í því að taka til í fjármálakerfum heimsins.

AGS varar þó við því að aðgerðarpakkar stjórnvalda hafi takmörkuðu áhrif á fjármálakerfin. Þannig hafi AGS fyrir um ári síðan varað við því að um 1 þúsund milljarðar dala myndu tapast vegna fjármálakrísunnar en hins vegar hafi komið á daginn hversu fljótt fjármálahrun er að vinda upp á sig og sú upphæð nú fjórfaldast – þrátt fyrir björgunaraðgerðir stjórnvalda út um allan heim.

Af þessum 4 þúsund milljörðum dala er áætlað að bankar (bæði viðskipta- og fjárfestingabankar) hafi tapað um 2,7 þúsund milljörðum dala en tryggingafélög, lífeyrissjóðir, fjárfestingafélög og önnur fjármálafyrirtæki hafi tapað restinni.

Þá gerir AGS ráð fyrir því að nánast ekkert fé í einkaeigu verði lánað milli ríkja á næstu árum heldur veðri einungis um að ræða lán beint á milli ríkisstjórna. AGS telur að um 1,8 þúsund milljarða dala þurfi að lágmarki á næsta ári til að endurfjármagna helstu fjármálamarkaði heims. Í skýrslu sinni lýsir AGS yfir sérstökum áhyggjum af þróunarríkjum sem munu eiga mjög erfitt með aðgang að lánsfjármagni á næstu árum, jafnvel næsta áratuginn.

Of mikil ríkisafskipti kunna að draga úr frumkvæði einkaaðila

Í efnahagsspá AGS, sem kom út fyrr í þessum mánuði, kemur fram að bankakerfi heimsins séu langt frá því að ná jafnvægi, þrátt fyrir björgunarpakka stjórnvalda sem numið hafa milljörðum dala.

Eins og áður segir varar AGS (í nýju skýrslunni) við því að ríkin gangi of langt í því að styrkja, jafnvel bjarga, fjármálakerfunum þar sem takmörk séu á því hversu mikið hægt sé að „pína sjóði skattgreiðenda,“ eins og það er orðað í skýrslunni.

Í skýrslu AGS er vikið sérstaklega að Bandaríkjunum þar sem um 1,5 þúsund milljörðum dala hefur þegar verið dælt í hagkerfið í þeirri von að styrkja fjármálakerfið en AGS telur að árangurinn láti á sér standa. AGS tekur þó vel í hugmyndir bandaríkjastjórnar um að koma á fót svokölluðum vondum banka (e. bad bank) sem myndi kaupa upp eitruð veð fjármálastofna og láta þau brenna þar upp.

Meginniðurstaða AGS í þessum málum er að stjórnvöld þurfi að fara varlega í endurfjármögnun og björgunaraðgerðum til að „draga ekki úr líkum á því að einkageirinn finni sér sjálfur leiðir út úr fjármálakrísunni,“ eins og það er orðað í skýrslunni en fram kemur að einkageirinn gætu þurft ákveðna hvatningu sem kæmi fyrst og fremst með því að stjórnvöld héldu að sér höndum.

Opinber stefnumótun þarf að vera skýr

Þá kemur fram í skýrslu AGS að það muni taka nokkur ár að koma bankastarfssemi í heiminum á eðlilegt ról á ný. Í ljósi þess ættu menn að undirbúa sig fyrir langa og sársaukafulla kreppu í millitíðinni.

AGS varar þó við því að skilaboð stjórnvalda kunni að vera óljós og opinber stefnumótun þurfi að vera skýr þannig að ekki fari á milli mála hvert skal stefnt.

„Ef opinber stefnumótun er óljós er mikil hætta á að bataferlið verði enn lengra en þarf er, allt á kostnað skattgreiðenda og efnahagslegra umsvifa,“ segir í skýrslu AGS.