Skýrsla sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte og matsfyrirtækið Oliver Wyman hafa um langt skeið unnið að mati á verðmæti eigna sem fluttar verða úr gömlu bönkunum í þá nýju, er enn meðhöndluð sem leyndarmál.

Er það þrátt fyrir skýr ákvæði stjórnarsáttmála um virka upplýsingagjöf til almennings og að því hafi verið haldið fram að skýrslan feli í sér upplýsingar um algjört hruni íslensks efnahagslífs.

Hvorki hefur náðst í forsætisráðherra né fjármálaráðherra í morgun vegna þessa máls þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Í kynningaráætlun Fjármálaeftirlitsins um skýrsluna segir m.a.:

Nauðsynlegt er að upplýsingar um verðmat séu fyrst birtar samningsaðilum og þeim gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra og kynna sér þær ítarlega. Þegar samningar hafa náðst verður samantekt á efni skýrslnanna gerð opinber. Í skýrslunum er meðal annars  að finna viðkvæmar og verðmyndandi upplýsingar og því er ekki unnt að birta þær opinberlega að svo stöddu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarlokksins, gagnrýnir að efni skýrslunnar skuli ekki vera opinberað. Sérstaklega í ljósi þess að niðurstöður hennar séu háalvarlegar. Vitnar hann í drög úr skýrslunni og segir tölur í endurmati á stöðu bankanna feli í sér að gert sé ráð fyrir algjöru hruni íslensks efnahagslífs.

Þá má enn fremur benda á að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna er sérstök áhersla lögð á upplýsingagjöf til almennings. Þar segir m.a.:

„Ný ríkisstjórn leggur sérstaka áherslu á virka upplýsingagjöf til íslensku þjóðarinnar um stöðu landsmála og aðgerðir til þess að rétta efnahagslífið af eftir þau áföll sem dunið hafa á fjármálakerfi landsins."

Í ljósi þess að kosningar eru á morgun, hlýtur skýrsla sem fjallar um undirstöður íslenska fjármálakerfisins að teljast afar mikilvæg varðandi upplýsingagjöf til íslensku þjóðarinnar þar sem hún geti haft áhrif á afstöðu fólks í kosningum.

Því er ekki óeðlilegt að menn túlki það sem svo að miðað við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé það mikill ábyrgðarhluti að halda slíku efni leyndu þar til búið er að telja upp úr kjörkössunum. Slík leynd hlýtur líka að vekja upp vangaveltur um að verið sé að fela óþægilegar upplýsingar sem komi sér illa fyrir núverandi stjórnarflokka.