Það ríkir nokkur spenna á mörgum af þeim stöðum þar sem valið er á lista flokkanna í dag. Hjá Vinstri grænum fer fram forval í Reykjavík og í Suðvesturkjördæmi.

Í Suðvesturkjördæmi hefur öldrunarlæknirinn Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, boðið sig fram gegn Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sem var í fyrsta sæti gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Ólafur Þór hefur samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins skráð töluvert af einstaklingum í flokkinn á síðustu vikum og nemur fjölgunin á kjörskrá um 30%. Þá herma heimildir Viðskiptablaðsins að hér sé um að ræða aðför að Ögmundi með samþykki flokksforystu Vinstri grænna.

Gert er ráð fyrir því að Rósa Björk Brynjólfsdóttir , upplýsingafulltrúi í fjármálaráðuneytinu, nái öðru sæti á lista flokksins eins og hún stefnir á. Ef Ögmundur eða Ólafur Þór lenda í fyrsta og öðru sæti listans að forvali loknu verður annar þeirra færður niður í þriðja sæti vegna reglna um fléttulista (jafna kynjaskiptingu). Vinstri grænir eru með tvo þingmenn í kjördæminu í dag en samkvæmt Þjóðarpúlsi Capacent fengju Vinstri grænir aðeins einn þingmann í kjördæminu ef gengið yrði til kosninga nú.

Þingmenn VG í Reykjavík berjast fyrir sætum sínum

Í Reykjavík sækjast ráðherrarnir Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir báðar eftir fyrsta sæti. Þá sækjast þingmennirnir Árni Þór Sigurðsson og Álfheiður Ingadóttir bæði eftir 2. sæti á lista en þingmaðurinn Björn Valur Gíslason sækist eftir 1. – 2. sæti. Hann er núna þingmaður Norðvesturkjördæmis en býður sig nú fram í Reykjavík. Vinstri grænir eru í dag með fimm þingmenn í Reykjavík en samkvæmt Þjóðarpúlsi Capacent fengju þeir í dag þrjá þingmenn og þannig hefur flokkurinn verið að mælast síðustu mánuði. Að öllu óbreyttu má því gera ráð fyrir því að einhver þessara þingmanna detti af þingi í vor.

Í Suðurkjördæmi mun uppstillinganefnd kynna lista VG eftir hádegi í dag. Atli Gíslason, sem var eini þingmaður VG í kjördæminu áður en hann sagði sig úr þingflokknum fyrr á þessu kjörtímabili, gefur ekki kost á sér áfram. Samkvæmt Þjóðarpúsli Capacent myndi flokkurinn halda einum manni í kjördæminu ef gengið yrði til kosninga nú.

Barátta í Reykjavík

En það ríkir ekki síður spenna hjá Sjálfstæðisflokknum en dag fer fram prófkjör flokksins í Reykjavík auk þess sem kosið verður um lista flokksins í Norðvesturkjördæmi á kjördæmisþingi flokksins þar.

Í Reykjavík berjast þau Hanna Birna Kristjánsdóttir, fv. borgarstjóri, og Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður, um 1. sætið á lista flokksins. Þá hafa þingmennirnir Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Pétur H. Blöndal allir gefið kost á sér í 2. sæti listans. Rétt er að minna á að sá aðili sem lendir í 2. sæti mun leiða lista flokksins í öðru hvoru reykjavíkurkjördæminu. Illugi bar sigur úr býtum í baráttu við Guðlaug Þór í prófkjöri flokksins í byrjun árs 2009. Hanna Birna kemur nú ný inn í landsmálin en hún er sem kunnugt er oddviti flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Samkvæmt Þjóðarpúlsi Capacent fengi Sjálfstæðisflokkurinn níu þingmenn kjörna í Reykjavík. Það sem flækir þó stöðuna nokkuð er að flokkurinn fengi sex þingmenn í Reykjavík suður en aðeins þrjá í Reykjavík norður. Þó má gera ráð fyrir því að núverandi þingmenn flokksins haldi sætum sínum nái þeir sæmilegri kosningu í dag.

Þá mun sem fyrr segir vera valið á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í dag. Ásbjörn Óttarsson mun ekki gefa kost á sér áfram en Einar K. Guðfinnsson, fv.  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun gefa kost á sér áfram og má telja nokkuð örugg að hann leiði lista flokksins. Þá hafa þrír einstaklingar gefið kost á sér í annað sæti listans, þau Bergþór Ólason, fjármálastjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri og Haraldur Benediktsson, bóndi og formaður Bændasamtaka Íslands.

Uppstilling hjá Framsókn

Framsóknarflokkurinn mun einnig velja á lista í kjördæminu í dag með sömu aðferð og þar sækist Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður, eftir því að leiða lista flokksins áfram. Ásmundur Einar Daðason sækist eftir öðru sæti. Hann var sem kunnugt er kjörinn á þing fyrir Vinstri græna árið 2009 en gekk til liðs við Framsóknarflokkinn á kjörtímabilinu.