Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu jókst nokkuð í vikunni, eða um 16% milli vikna, en hafði í vikunni á undan aukist um 48% milli vikna.

Þannig nam veltan í síðustu viku tæpum 1,5 milljörðum króna samkvæmt gögnum frá Fasteignaskrá Íslands og hefur ekki verið hærri frá því í byrjun júlí. Fjöldi samninga var þó ekki mikill en það er hátt meðalverð á hvern samning sem skýrir mikla veltu.

Fjögurra vikna meðalvelta fer nú yfir milljarð í fyrsta skipti í fjórar vikur en þar til í síðustu viku hafði hún lækkað fjórar vikur í röð.

Þannig nemur fjögurra vikna meðalvelta nú rúmum 1,1 milljarði króna en var í síðustu viku tæpar 970 milljónir. Mest hefur fjögurra vikna meðalvelta verið tæpir 1,3 milljarðar á þessu ári en það var um miðjan apríl.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér til hliðar. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta hefur nú lækkað um 50% milli ára en á sama tíma í fyrra hafði fjögurra vikna meðalvelta lækkað um 62% milli ára sem ætti að gefa lesendum nokkra hugmynd um það hversu mikið velta á fasteignamarkaði hefur dregist saman á s.l. tveimur árum.

Tólf vikna meðalvelta hækkar örlítið á milli vikna, þriðju vikuna í röð, nú um 16 milljónir króna, og nemur nú 1.119 milljónum króna.

Tólf vikna meðalvelta hefur nú dregist saman um 50% milli ára en hafði á sama tíma í fyrra dregist saman um 66% milli ára. Mest hafði 12 vikna meðalvelta þó dregist saman um 80% um miðjan janúar s.l.

Ársbreyting á vikuveltu hefur dregist saman 52%. Rétt er þó að hafa í huga að velta á fasteignamarkaði getur sveiflast nokkuð milli vikna og því er réttara að skoða fleiri vikur saman líkt og gert er hér að ofan.

Til gamans má þó skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði. Hún er í dag 1.291 milljónir króna, og hefur lækkað jafnt og þétt s.l. 18 vikur, samanborið við 3.547 milljónir króna á sama tíma í fyrra og hefur því lækkað um 64% milli ára. Á sama tíma í fyrra hafði hún lækkað um 32% milli ára.

Í þessari viku:

Alls var 34 kaupsamningum þinglýst í vikunni en 47 samningum þar á undan. Alls hefur 35 samningum verið þinglýst að meðaltali á viku á þessu ári.

Meðalupphæð á hvern samning er nokkuð há eins og kom fram í upphafi, nam 43,8 milljónum króna í vikunni sem er töluvert yfir meðallagi, samanborið við 27,4 milljónir króna í vikunni á undan. Meðalupphæð á hvern samning frá áramótum er nú 33 milljónir króna.