Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu breyttist lítið milli vikna í vikunni, dróst þó saman um 1%, en hafði í síðustu viku aukist um 33%.

Þannig nam veltan í vikunni 1.556 milljónum króna samkvæmt gögnum frá Fasteignaskrá Íslands en í vikunni á undan nam veltan 1.579 milljónum króna og hafði þá ekki verið meiri á einni viku frá því í byrjun maí.

Fjögurra vikna meðalvelta hækkar milli vikna, aðra vikuna í röð. Þannig nemur fjögurra vikna meðalvelta nú 1.453 milljónum króna og hefur ekki verið jafn há frá því um miðjan maí. Mest hefur fjögurra vikna meðalvelta verið tæpir 1,6 milljarðar á þessu ári en það var um miðjan maí.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta hefur nú lækkað um 43% milli ára en á sama tíma í fyrra hafði fjögurra vikna meðalvelta lækkað um 68% milli ára.

Tólf vikna meðalvelta hækkar enn á milli vikna, áttundu vikuna í röð, nú um 27 milljónir króna, og nemur nú 1.217 milljónum króna. Tólf vikna meðalvelta hefur þó dregist saman um 47% milli ára en hafði á sama tíma í fyrra dregist saman um 64% milli ára.

Ársbreyting á vikuveltu hefur dregist saman 27%. Rétt er þó að hafa í huga að velta á fasteignamarkaði getur sveiflast nokkuð milli vikna og því er réttara að skoða fleiri vikur saman líkt og gert er hér að ofan.

Til gamans má þó skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði. Hún er í dag 1.186 milljónir króna, og hefur lækkað jafnt og þétt s.l. 23 vikur, samanborið við 3.069 milljónir króna á sama tíma í fyrra og hefur því lækkað um 61% milli ára.

Í þessari viku:

Alls var 54 kaupsamningum þinglýst í vikunni, líkt og í síðustu viku, sem er talsvert yfir meðallagi en alls hefur 37 samningum verið þinglýst að meðaltali á viku á þessu ári.

Meðalupphæð á hvern samning lækkar lítillega milli vikna og nemur nú 28,8 milljónum króna, samanborið við 29,2 milljónir króna í vikunni á undan. Meðalupphæð á hvern samning frá áramótum er nú 32,3 milljónir króna.