Íslenska ríkið þyrfti að selja eignir sínar til að koma í veg fyrir gjaldþrot ef að neyðarlögin frá því í október 2008 halda ekki. Helstu eignir ríkisins eru meðal annars Landsvirkjun, Rarik og hlutur í stóru viðskiptabönkunum þremur.

Haldi lögin ekki fyrir dómstólum munu um 618 milljarðar króna, um fimm milljarðar dala, bætast við erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins. Sú upphæð samsvarar um 40 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu.

Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands sem birt var í nóvember. Í skýrslunni segir að ef neyðarlögin haldi ekki muni það leiða til þess að Ísland „standi frammi fyrir mikilli áskorun“ gagnvart skuldaþoli ríkisins.

Ef lögunum yrði hnekkt myndi það „í kenningunni þýða að hægt væri að mæta þessu með sölu á eignum ríkisins eða jafnvel þrengri fjárhagslegri afstöðu [innsk. blaðam. meiri samdrætti í ríkisfjármálum], þótt að almennur stuðningur við slíka stefnu sé langt í frá öruggur.“

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að í þessum orðum felist í reynd sá skilningur AGS að Ísland geti ekki ráðið við það ef neyðarlögin haldi ekki. Þá myndi Ísland lenda í greiðslufalli, gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og yrði í raun gjaldþrota. Íslenskir ráðamenn þyrftu þá að leita til Parísar-klúbbsins svokallaða og semja um niðurfellingu á skuldum sínum við lánadrottna, sem eru að mestu önnur þjóðríki og AGS.

Einhliða vangaveltur AGS

Indriði Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segist telja að um einhliða vangaveltur sé um að ræða hjá AGS þegar sjóðurinn velti fyrir sér sölu eigna. Hann segir enga eiginlega varaáætlun vera til staðar ef neyðarlögunum yrði hnekkt.

„Það kæmi varla til greina að selja eignir ríkisins. Ef lögin myndu ekki halda þá væri það einfaldlega ný staða sem þyrfti þá að hugsa alveg frá grunni. Við höfum vitað af þessum möguleika en teljum að tíminn þar til að niðurstaða í eitthvað slíkt gæti komið til, vegna málaferla og þess aðdraganda sem það hefði, er mörg ár. Þetta er ekki ástand sem myndi skella á skyndilega. Ef það stefndi í að lögin myndu ekki halda þá væri tími til að velta fyrir sér til hvaða aðgerða við ættum að grípa.“

Kröfuhafar Landsbankans stefna ríkinu

Mýmörg mál hafa verið höfðuð fyrir dómstólum til að reyna að fá neyðarlögunum hnekkt. Það eru sérstaklega kröfuhafar Landsbankans sem hafa höfðað slík mál, enda þykir ljóst að eignir gamla Landsbankans dugi í besta falli fyrir forgangskröfum. Þær eru að mestu Icesave-skuld Íslendinga við Hollendinga og Breta.

Því þurfa lánveitendur og skuldabréfaeigendur sem eiga kröfur á Landsbankann að afskrifa kröfur sínar að langstærstu leyti. Eina endurheimt slíkra kröfuhafa verður hlutdeild í 20 prósent eignarhlut í nýja Landsbankanum ef tekst að semja um það.

Ástandið er betra hjá hinum bönkunum tveimur þar sem að kröfuhafar hafa þegar samþykkt að koma að sem meirihlutaeigendur að nýju bönkunum og vonir um endurheimtir eru mun hærri en hjá Landsbankanum.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að helstu kröfuhafar bæði Glitnis og Kaupþings hafi lítinn sem engan áhuga á að eignast íslenska banka. Stefna þeirra er sú að selja hlutina þegar tækifæri gefst til, til dæmis þegar bankarnir verða skráðir aftur á almennan hlutabréfamarkað.

DekaBank vill 62 milljarða króna

Fyrsta málið þar sem reynir á neyðarlögin verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur 14. desember næstkomandi. Í því máli stefnir þýski bankinn DekaBank fjármálaráðuneytinu fyrir hönd íslenska ríkisins vegna setningar neyðarlaganna. Þýski bankinn vill að íslenska ríkið greiði sér 338 milljónir evra, um 62 milljarða króna, í skaðabætur vegna setningu neyðarlaganna.

Jafnt íslenskir ráðamenn sem og fulltrúar AGS vænta þess að neyðarlögin haldi á meðan að fjallað er um þau fyrir íslenskum dómstólum. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu fyrr í þessari viku að setning neyðarlaganna hefði verið réttmæt.

Sú niðurstaða styður málstað Íslendinga en er þó ekki endanleg. Líkast til mun lokaniðurstaða íslenskra dómstóla byggja að hluta til á áliti frá EFTA-dómstólnum og ekki er loku fyrir það skotið að málum sem snúast um neyðarlögin verði skotið til þess dómstóls eða jafnvel mannréttindadómstóls Evrópu.