Fyrsta ákæra embættis sérstaks saksóknara, sem þingfest verður í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrramálið, snýst um viðskipti stjórnenda Byrs og MP Banka í október og desember 2008. Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi formaður stjórnar Byrs, Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP Banka, eru ákærðir í málinu. Allir eru þeir ákærðir fyrir umboðssvik en Styrmir Þór er að auki ákærður fyrir peningaþvætti.

Yfirdráttarlán í október og desember 2008

Í október 2008 veitti Byr einkahlutafélaginu Tæknisetrinu Arkea, síðar Exeter Holding, 800 milljón króna yfirdráttarlán til að fjármagna að fullu kaup á stofnfjárbréfum í Byr. Rúmlega 200 milljóna króna yfirdráttarlán til viðbótar var svo veitt í desember til kaupa á stofnfjárbréfum. Í ákærunni, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, segir að lánin hafi verið veitt “án fullnægjandi tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins þar sem ekki voru fyrir hendi aðrar tryggingar en veð í stofnfjárbréfunum sjálfum.” Þetta er sagt hafa brotið í bága við starfsreglur sparisjóðsins um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga og án þess að meta “á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lánþegans í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins,” eins og orðrétt segir í ákæru.

Lánin voru veitt til þess að kaupa stofnfjárbréf af ákærðu Jóni Þorsteini og Ragnari og fleiri stjórnendum hjá Byr. Í ákærunni segir orðrétt:

“Stofnfjárbréfin sem einkahlutafélagið Tæknisetrið Arkea keypti með umræddri fjármögnun Byrs sparisjóðs voru í eigu eftirtalinna aðila:

1) Húnahorns ehf. [félags Ragnars Z.] 20.871.253 stofnfjárhlutir að nafnvirði. 2) Jóns Þorsteins Jónssonar 54.109.865 stofnfjárhlutir að nafnvirði. 3) Auðar Örnu Eiríksdóttur 16.767.866 stofnfjárhluti að nafnvirði. 4) G. Óttars Sigurðssonar 4.219.342 stofnfjárhlutir að nafnvirði 5) G. Árnasonar ehf. 27.047.068 stofnfjárhlutir að nafnvirði. 6) MP Banka hf. 119.244.757 stofnfjárhlutir að nafnvirði.”

Hlutdeild í brotunum

Styrmir Þór er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikunum. Þar sem hann hafi “lagt á ráðin” með Jóni Þorsteini og Ragnari Z. um hvernig staðið skyldi að fyrrnefndum viðskiptum. Þá segir í ákæru að fyrrnefnd lánveiting til kaupa á stofnfjárbréfum, sem voru m.a. í eigu MP Banka, hafi fært tjónsáhættu frá MP Banka yfir á Byr. “Gat ákærða ekki dulist, í ljósi aðdraganda viðskiptanna og allra aðstæðna, að féð var greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs með ólögmætum hætti,” segir í ákæru.

Þá er Styrmir Þór einnig ákærður fyrir peningaþvætti þar sem hann hafi tekið við framangreindum fjármunum sem aflað var með “umboðssvikum meðákærðu, þrátt fyrir að honum hefði mátt vera ljóst, í ljósi allra aðstæðna, að lán það sem meðákærðu útveguðu frá Byr sparisjóði til viðskiptanna var veitt með ólögmætum hætti,” segir orðrétt í ákærðu.   Umboðssvik eru hegningarlagabrot og varða allt að tveggja ára fangelsi en allt að sex ára fangelsi ef sakir eru mjög miklar. Hámarksrefsing fyrir peningaþvætti eins og því er lýst í ákæru, þ.e. broti 264. grein almennra hegningarlaga, er tveggja ára fangelsi.

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrramálið klukkan 10:00.