Nýlega bárust ritstjórn Viðskiptablaðsins fréttir af ferðamanni sem ferðast hefur víða um Evrópu og iðulega notast við bílaleigubíla á ferðum sínum. Hann sagðist hvergi hafa komist í kynni við verðlag af því tagi sem tíðkast á íslenskum bílaleigum. Þessi ummæli urðu til þess að Viðskiptablaðið fór á stúfana og gerði óvísindalegan samanburð á verði bílaleigubíla á Íslandi og í sjö öðrum Evrópuríkjum.

Við samanburðinn var notað verð hjá bílaleigunni Hertz sem er með starfsemi í öllum ríkjum og leitað var að verði á bílum í stærðarflokkunum B (t.d. Volkswagen Golf eða Toyota Corolla) og C (t.d. Toyota Avensis eða Opel Astra). Alls staðar var miðað við að bíllinn yrði sóttur á flugvelli. Bókunartímabilið var einn mánuðir yfir hásumar, 15. júní til 14. júlí. Samanburðurinn er gerður sl. mánudag og er miðað við gengi evru, punds, sænskrar krónu og norskrar krónu.

Til samræmis er verð síðan umreiknað í annars vegar evrur og hins vegar íslenskar krónur. Tekið skal fram að í Þýskalandi fengust ekki upplýsingar um verð á bíl í stærðarflokki C og var því notast við stærðarflokk D og á Ítalíu var notast við stærðarflokka C og D þar sem í flokki C var boðið upp á Ford Fiestu sem er í sama stærðarflokki og Volkswagen Golf.

Styttra ferðamannatímabil

Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu er verðmunurinn gríðarlegur. Verð á bílaleigubíl í stærðarflokki B í einn mánuð yfir hásumarið er 489.100 og er það 350% hærra hér á landi en í Svíþjóð og 320% hærra en í Bretlandi og á Spáni. Verðið er sömuleiðis 169% hærra en í Þýskalandi sem sker sig úr meðal þeirra meginlandslanda sem þarna eru til viðmiðunar. Þegar litið er til frænda okkar í Noregi, sem jafnan telst til dýrustu ríkja heims, er verð á bílaleigubíl í stærðarflokki B 41% hærra hérlendis en í Noregi. Í Noregi, og víðar en þó ekki alls staðar, má einnig fá afslátt þegar greitt er við pöntun.

Hertz
Hertz
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Svipaða sögu er að segja af bílum í stærðarflokki C. Leiga á slíkum bíl kostar 551.450 krónur í einn mánuð og er hún 271% dýrari en í Svíþjóð, 282% dýrari en í Bretlandi og 170% dýrari en í Þýskalandi. Þá er leiga á bíl í flokki C 39% hærri hérlendis en í Noregi.

Sigfús B. Sigfússon, framkvæmdastjóri Hertz á Íslandi, segir marga þætti skýra þennan mun. „Fyrst ber að nefna okkar stutta ferðamannatímabil, þ.e. háönn í júní, júlí og ágúst. Yfir þetta tímabil þá þurfum við að fjór- til fimmfalda bílaflota okkar, úr um 250 bílum í um 1.100 bíla. Við þurfum semsagt að leggja stórum hluta af okkar flota í 9 til 10 mánuði á ári, og greiða af honum fjármagnsleigu og afföll á meðan. Ég tel að þetta sé ein helsta ástæðan fyrir hærra verðlagi hér,“ segir hann en nefnir einnig minni markað, dýrari tryggingar, dýrara fjármagn, hærri afföll bílaumboða, fleiri tjón og hærri tjónskostnað auk dýrari aðfanga sem ástæður fyrir verðmuninum. Hann segir bílana einnig að jafnaði keyrða mun meira en erlendis og að markaðurinn sé almennt allt öðruvísi hér en erlendis. „Ég vil svo benda á að þeim sem aka minna býðst lægra verð,“ segir Sigfús.