Alls eru nú 18.014 á atvinnuleysisskrá samkvæmt tölum á vef Vinnumálastofnunar sem dagsettar eru í dag. Atvinnulausum hefur fjölgað hratt, en hraði vaxtarins hefur einnig dregist nokkuð hratt saman, samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.

2/3 atvinnulausra eru í Reykjavík og tæpir 2/3 eru karlar. Vinnumálastofnun setur ákveðna fyrirvara við þessar tölur, meðal annars þann að þeim sem séu í hlutastarfi en á atvinnuleysisskrá fari fjölgandi og séu nú um 3.000. Þá séu nálægt 1.000 á skránni í raun ekki í atvinnuleit lengur.

Atvinnuleysi um 9,1%

Vinnumálastofnun segir að ætla megi að nú séu tæplega 180.000 manns á vinnumarkaði og að lækka megi tölu atvinnulausra um nálægt 10% vegna þeirra fyrirvara sem nefndir eru hér að ofan. Stofnunin áætlar hlutfall atvinnulausra því um 9,1% af vinnuafli í landinu.

Atvinnuleysi eykst hratt

Atvinnuleysi hefur vaxið á ógnarhraða á síðustu mánuðum. Frá því í febrúar hefur það vaxið um 16% og það hefur tvöfaldast frá því í desember. Á einu ári hefur atvinnuleysið tæplega tífaldast, en í apríl í fyrra voru 1.857 skráðir atvinnulausir.

Hraði vaxtarins minnkar

Hraðinn á vexti atvinnuleysisins hefur farið minnkandi samkvæmt útreikningi Viðskiptablaðsins á tölum Vinnumálastofnunar. Hlutfallslega hefur vöxturinn minnkað mikið á milli mánaða, sem stafar aðallega af því hve atvinnulausum hefur fjölgað mikið. Það sem skiptir meira máli er að hraði vaxtarins hefur einnig minnkað talið í fjölda atvinnulausra.

Nær atvinnuleysið hámarki í 12% í september?

Þannig hefur atvinnulausum fjölgað um rúmlega 2.500 frá því í febrúar en fjölgaði um tæplega 3.100 á milli janúar og febrúar og náði hámarki í janúar þegar fjölgunin var ríflega 3.400 frá því í desember. Ef vöxturinn heldur áfram að dragast saman með sama hraða og hann hefur gert frá því í janúar þá mun atvinnuleysi hætta að aukast í september á þessu ári. Ef þróunin yrði með þessum hætti myndi atvinnuleysi ná hámarki í um 12%.

Mikil óvissa framundan

Þetta gæti þó gerst fyrr ef ýmsar af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í sumar komast af stað, en margir óvissuþættir eru framundan þannig að erfitt er að spá fyrir um hvenær atvinnuleysið nær hámarki eða hvert það verður áður en það minnkar á ný. Sú hætta er einnig fyrir hendi að gjaldþrotum fyrirtækja fari fjölgandi með vorinu og þar með að vöxtur atvinnuleysisins aukist á nýjan leik.