Þýski stjórnlagadómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að efnahagsstefna aðildarríkja sé órjúfanlegur hluti fullveldi þeirra. Þetta álit á eftir að hafa mikið að segja um þróun mála á evrusvæðinu.

Ljóst er að örlög Lissabon-sáttmálans koma til með að ráða miklu um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Ólíklegt er að til frekari stækkunar ESB komi á meðan óvissa ríkir um hvort sáttmálinn taki gildi. Einni af hindrunum var rutt úr vegi á dögunum þegar þýski stjórnlagadómstóllinn úrskurðaði að hann bryti ekki í bága við stjórnarskrá landsins. Þrátt fyrir að fátt standi í vegi fyrir að stjórnvöld í Berlín samþykki Lissabon-sáttmálann fyrir árslok er margt í sjálfum úrskurðinum sem vekur athygli og varpar áhugaverðu ljósi á hugsanlega þróun Sambandsins á næstu áratugum.

Fréttir af úrskurðinum hafa að mestu snúist um þá skoðun stjórnlagadómstólsins að Evrópuþingið sé í raun ekki hreinræktaður löggjafi sem sé fulltrúi vilja og skoðana kjósenda íbúa í aðildarríkjum ESB. Dómstóllinn bendir á að Evrópuþingið eigi fátt sameiginlegt með hefðbundnum þjóðþingum þar sem þar er engin formleg stjórnarandstaða og enginn meirihluti sem fylkir sér að baki framkvæmdavaldinu. Þrátt fyrir að Lissabon-sáttmálinn komi til með að styrkja stöðu Evrópuþingsins ræður hann ekki á þessu bót að mati stjórnlagadómstólsins.

__________________________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á vefnum. Hægt að óska eftir lykilorði og áskrift á vefnum.