Í apríl var 71 nýr fólksbíll nýskráður hér á landi og hefur skráning í einum mánuði aðeins einu sinni verið lakari á síðustu árum, en það var í desember sl. þegar 46 nýir fólksbílar voru nýskráðir.

Þetta kemur fram í gögnum frá Umferðarstofu, sem sýna nýskráningar nýrra og notaðra bifreiða og þar með sölu bíla sem fluttir eru til landsins.

Á meðfylgjandi mynd sést ársbreyting þriggja mánaða meðaltals nýskráningar fólksbíla, bæði nýrra og notaðra. Samdrátturinn í apríl á þennan mælikvarða var 88%. Nýskráningar nýrra fólksbíla fram til 15. maí hafa verið 39, sem bendir til að ástandið sé ekki að batna.

Frekari samdráttur meðal annarra bifreiða en fólksbíla

Þróunin hefur verið mjög svipuð hjá öðrum bifreiðum en fólksbílum, þ.e. hópbifreiðum, sendibifreiðum og vörubifreiðum. Samdrátturinn á milli ára, þegar horft er á þriggja mánaða meðaltal, var 89% í apríl.

Ef horft er á tölurnar fyrir apríl og fyrri hluta maí virðist sem samdráttur í nýskráningum annarra bifreiða sé að aukast. Þannig voru aðeins fjórar nýjar bifreiðar af þessari gerð nýskráðar í fyrri hluta maí og 13 allan apríl, en í mars voru þær 21 og í febrúar 35. Hafa ber í huga að töluverðar sveiflur geta verið á milli mánaða þannig að ekki er rétt að draga of víðtækar ályktanir af tölunum.