Fjölmörg alþjóðleg flugfélög hafa undanfarnar vikur og mánuði verið að sækja gamlar Boeing 747 flugvélar úr geymslu úr eyðimörkinni í Kaliforníu ríki í Bandaríkjunum.

Frá þessu er greint á vef Bloomberg. Í Kaliforníu eru nokkur svæði sem hýsa svokallaða flugvélakirkjugarða. Þangað er gömlum flugvélum flogið sem ekki er fargað en í flestum tilvikum eru nær rifnar niður á löngum tíma og varahlutir úr þeim notaðir í aðrar vélar sem eru enn í notkun.

Þó eru fjölmargar vélar sem eru í lagi og flugfærar. Rétt er að taka fram að engin vél er tekin aftur í notkun án þess að fá vottun flugyfirvalda.

British Airways er eitt þeirra félaga sem sótt hefur gamla vél sem áður var lagt. Þannig mun félagið sækja gamla 747-400 vél sem nýtt verður á flugleiðinni frá Lundúnum til Dallas í vetur. Með því tekst félaginu að losa um nýja Boeing 777 vél sem nýtt verður í aukaflug til New York sem áætlað er að  hefja í vetur.

Bandaríska flugfélagið United Airlines hefur einnig sótt gamlar vélar í eyðimörkina í Kaliforníu sem nýttar verða í flug frá Bandaríkjunum til Asíu, Lundúna og Frankfurt. Þá hefur fraktfélagið Cathay Pacific sótt 5 gamlar fraktvélar í eyðimörkina og notað í sumar.

Um 200 vélar hafa verið sóttar úr eyðimörkinni í sumar og settar aftur í notkun. Þar af eru um 50 breiðþotur (þó ekki allar af tegundinni Boeing 757) samkvæmt tölum frá Ascend Worldwide.

Aukið framboð flugsæta

Með því að taka eina vél aftur í notkun er British Airways að auka sætaframboð sitt til Dallas um 7% á milli ára. Sem fyrr segir mun félagið taka aðra vél af þeirri flugleið og fljúga henni á milli Lundúna og New York.

Bloomberg tekur þó fram að vonandi hafi British Airways lært af reynslunni en árið 1990 tók félagið hóp gamalla véla aftur í notkun í þeirri von að mæta aukinni eftirspurn eftir flugsætum. Aukið framboð flugsæta var hins vegar of mikið á of stuttum tíma og svo fór að vélarnar voru meira og minna hálftómar. Til gamans má geta þess að British Airways er nú þegar með sjö Boeing 747 í geymslu í Kaliforníu.

Farþegaflug á alþjóðavísu jókst um 12% á milli ára í júní sl. samkvæmt mælingum IATA. Þá jókst fraktflug um 27% á milli ára í sama mánuði.

Deildar meiningar um aukið framboð

Viðmælendur Bloomberg eru þó mishrifnir af auknu framboði flugsæta. Á meðan aðrir fangna því að hægt sé að nýta vélar sem setið hafi kyrrar um nokkurn tíma er ekki laust við að nokkrir hafi áhyggjur af því að flugfélögin auki sætaframboð sitt of mikið. Slíkt mun hugsanlega lækka verð á flugmiðum um einhvern tíma en til langs tíma mun það ekki standa undir rekstrarkostnaði að vera með of margar flugvélar í umferð.

Af lestri erlendra fréttamiðla og þá sérstaklega þeirra sem mikið fjalla um flugiðnaðinn má greina að bæði Airbus og Beoing eru lítt hrifnir af því að flugvélum sé lagt í lengri tíma og síðan teknar aftur í notkun.

Áhyggjur flugframleiðandanna markast ekki af öryggisástæðum heldur byggjast þær á viðskiptalegum forsendum. Verði hrun í eftirspurn flugsæta kann það að draga úr væntingum flugfélaga og að lokum hafa áhrif á pantanir nýrra véla. Nú er þó rétt að hafa í huga að flugfélög panta nýjar flugvélar með löngum fyrirvara og með langtímamarkmið í huga. Það breytir því þó ekki að markaðsaðstæður hverju sinni geta haft veruleg áhrif á pantanir nýrra véla.

Flugtak og lendingar 747

En 747 vélarnar ganga kaupum og sölum og nýting þeirra er með ýmsum hætti. Þannig hyggst Air France-KLM taka nær allar 747 vélar sínar um umferð á næstu árum og nýta Airbus A380 breiðþotuna og Being 777-300 vélar í staðinn. Airbus A380 vélarnar verða notaðar í lengri leiðir en þær eru sem kunnugt er tveggja hæða.

Þá mun Cathay Pacific flytja fjórar 747-400 fraktvélar til Air China Cargo í lok næsta árs (Cathay Pacific á 49% hlut í Air China) en þá er áætlað að félagið fái afhentar nýja Boeing 747-8 vél. Boeing 747-8 er í raun nýjasta útgáfa 747 línunnar en henni var reynsluflogið nýlega og er enn í hönnun.

Loks má nefna að ástralska flugfélagið Qantas Airways hyggst á næstu vikum taka fjórar 747-300 vélar úr geymslu en félagið gekk nýlega frá sölu á vélunum. Vélarnar voru geymdar í Arizona í Bandaríkjunum.