JPMorgan, Goldman Sachs og átta aðrir bandarískir bankar fengu í gær heimild bandarískra yfirvalda til að hefja endurgreiðslur á neyðarlánum sem bankarnir fengu undir lok síðasta árs.

Það, að bankarnir skuli nú telja sig tilbúna til að hefja endurgreiðslur lánanna, þykir gefa til kynna að fjárhagur þeirra sé sterkur en einungis þeir bankar sem stóðust nýlegt álagspróf bandaríska seðlabankans fá að hefja endurgreiðslur.

Málið er þó ekki svona einfalt. Bandarískir fjölmiðlar ýja margir að því að bankarnir ætli sér nú að hefja endurgreiðslur, fyrr en áætlað var, til að losna við afskipti hins opinbera af launa- og bónusgreiðslum til æðstu stjórnenda bankanna. Þegar neyðarlánin voru veitt lögðu stjórnvöld áherslu á að „óeðlilegar“ bónusgreiðslur til æðstu stjórnenda bankanna yrðu lagðar af þó ekkert samkomulag hafi þó verið undirritað í þá vera nema í einstökum tilvikum.

Hins vegar hefur nýlega reynt á vilja stjórnvalda í þessu máli þegar hinn fallni tryggingarisi, AIG ætlaði snemma í vor að greiða helstu stjórnendum félagsins gífurlegar upphæðir í bónusgreiðslur en sem kunnugt er bjargaði bandaríska ríkið félaginu frá gjaldþroti s.l. haust. Í því tilviki var um bónusgreiðslur að ræða sem samið hafði verði um við stjórnendur áður en félagið fór á hliðina en samkvæmt þeim samningum voru engar forsendur fyrir því að greiða ekki út bónusgreiðslurnar.

Málið vakti upp gífurlega reiði vestanhafs og að lokum hótaði ríkisstjórn Barack Obama að leggja allt að 95% tekjuskatt á slíkar greiðslur, jafnvel aftur í tímann, en Obama lýsti því yfir að bandarískir skattgreiðendur hefðu ekki komið félaginu til hjálpar til að greiddir yrðu bónusar til æðstu stjórnenda úr rústum þess, eins og hann orðaði það á einum blaðamannafundi.

Um það hvort að bankarnir séu nú að vilja hefja endurgreiðslur eru skiptar skoðanir en álitsgjafara bandarískra fjölmiðla ýja margir að því að allir vilji stjórnendurnir losna við „annað AIG mál“ eins og einn viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar orðaði það í gærkvöldi. Þannig vilji bankarnir losna við ríkið af herðum sér og taka sjálfstæðari ákvarðanir.

Aðrir telja þó að bankarnir sem um ræðir séu vel fjármagnaðir og vilji því byrja að endurgreiða lánin til að klára það af.

Betur nýtt í frekari útlán?

Hlutabréfamarkaðir brugðust misjafnlega vel við tíðindum gærdagsins. Helstu hlutabréfavísitölur á Wall Street hækkuðu um leið og bandaríska fjármálaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu um málið en fljótlega fór sú hækkun að dala en að mati Reuters fréttastofunnar telja margir fjárfestar að bankarnir ættu frekar að nýta fjármagn sitt til frekari útlána, í þeirri von að koma hjólum efnahagslífsins í gang á ný.

„Það er tilgangslaust að leggja þetta fjármang aftur inn í [bandaríska] Seðlabankann á meðan allt er frosið á mörkuðum,“ segir einn viðmælandi Reuters.

„Bankarnir ættu frekar að lána peninginn til arðbærra verkefna og blása þannig lífi í hagkerfið. Það eina sem gerist með því að endurgreiða lánin núna er að það eykur líkurnar á því að yfirvöld þurfi aftur að lána það einhverjum öðrum sem er í vanda.“