Boeing 787 Dreamliner, nýjasta flugvél Boeing, mun fljúga fyrsta sitt fyrsta reynsluflug í dag.

Loksins, segja sumir, en vélin er nú rúmum tveimur árum á eftir áætlun og hefur það valdið bandaríska flugvélaframleiðandanum miklum erfiðleikum. Ýmsar ástæður valda seinkuninni, meðal annars verkfall starfsmanna Boeing í september s.l. og seinkanir á afhendingu varahluta.

Síðast en ekki síst er því þó um að kenna að vélin, sem markaðssett hefur verið sem umhverfisvæn vél, hefur hingað til reynst of þung. Vélin er að mestu samansett úr koltrefjaefnum og er gert ráð fyrir að 787 Dreamliner noti um 20% minna eldsneyti en aðrar vélar af sambærilegri stærð.

Síðla sumars tilkynnti Boeing að vélinni yrði flogið fyrir lok þessa árs. Það virðist nú ætla að rætast ef vélinni verður flogið rétt fyrir kl. 18 að íslenskum tíma.

Ef allt gengur að óskum í reynslufluginu verður ekki langt þangað til að fyrsta vélin verður afhent í þjónustu. Japanska flugfélagið All Nippon Airlines mun þá fá fyrstu vélina í lok næsta árs.

9 mánaða prufunarferli framundan

Eftir reynsluflugið tekur við rúmlega 9 mánaða prófunarferli þar sem sex vélum verður flogið svo að segja dag og nótt. Talsmenn Boeing tala um að prófunarferlið sé líkt því að reka lítið flugfélag.

Nú þegar eru átta vélar tilbúnar. Tvær þeirra hafa verið notaðar í fyrrgreind próf á jörðu niðri, svo sem prófanir á eldsneytistönkum og þær vélar munu aldrei fljúga. Hins vegar verða hinar sex vélarnar notaðar í reynsluflug en samkvæmt reglu bandarískra flugmálayfirvalda þarf að fljúga vélunum í 3.500 klukkustundir á 8-9 mánaða tímabili áður en þær eru „vottaðar“ ef þannig má að orði komast.

Tæknistjórar Beoing hafa nú unnið hörðum höndum að því að klára vélina, sem hefur þegar farið í gegnum nokkrar prófanir – þó ekki reynsluflug. Búið að er þrýstijafna vélina og í raun er líkan vélarinnar að verða tilbúið. Þá er búið að prófa lendingarbúnað hennar (sem er gert í sérstökum vélum).

Þá hafa farið fram prófanir á eldsneytistönkum vélarinnar en þær prófanir fara í stuttu máli þannig fram að þeir eru fylltir af vökva sem bólgnar út en þannig má sjá hvað eldsneytistankarnir þola mikinn þrýsting.

Í síðustu viku fóru fram prufanir á hemlunarbúnaði vélarinnar sem fer þannig fram að vélin er keyrð á yfir 200 km. hraða eftir flugbraut og síðan nauðhemlað. Þeim prufunum lauk um helgina.

840 vélar pantaðar

Sem fyrr segir ætti Being að geta afhent fyrstu vélina í þjónustu undir lok næsta árs, þ.e. af allt gengur að óskum héðan af. Afhending vélarinnar verður þá tæpum 3 árum á eftir áætlun.

Vélin er, líkt og aðrar vélar Boeing, sett saman í Everett í Washington fylki, rétt norðan við Seattle þó einstaka partar hennar séu framleiddir víðs vegar um heiminn.

Ástæðurnar fyrir töfinni á framleiðslu hennar er fyrst og fremst hægagangur birgja með varahluti, síendurtekinni þróunarvinnu á rafmagnsbúnaði hennar og ekki bætti sex vikna verkfall flugvirkja Boeing í september s.l. úr skák en þá stöðvaðist framleiðslan í nær átta vikur (það tekur tíma að koma framleiðslunni í gang á ný þó flugvirkjarnir séu mættir til vinnu).

Nú þegar hafa 840 vélar verið pantaðar af 55 flugfélögum. Nokkuð hefur þó verið um afpantanir vegna þeirrar tafa sem þegar hafa orðið og þeir viðskiptavinir sem ekki hafa snúið sér til helsta samkeppnisaðilans, Airbus hafa ýmist fengið afhentar 737 vélar eða 777 vélarnar sem nú eru nýjasta framleiðsla Boeing.

Það er mikilvægt að Beoing nái að afhenda vélarnar á næsta ári því flugfélög klára ekki að greiða fyrir vélarnar fyrr en þær eru afhentar.

Einstaklega sparneytin og langfleyg lúxusvél

787 Dreamliner á að vera einstaklega sparneytin og langfleyg. Þannig er talið að hún muni spara flugfélögum talsverðar fjárhæðir í eldsneytiskostnað auk þess sem hún þykir mjög umhverfisvæn.

Hönnun og framleiðsla vélarinnar byggir á nýrri tækni. Hún mun nota um 20% minna eldsneyti en flugvélar dagsins í dag, býður upp á 45% meira fraktrými, en munurinn á aðbúnaði farþega mun eflaust vekja mesta athygli. Innréttingar verða töluvert frábrugðnar því sem nú tíðkast, rakastig um borð verður hærra og líkara því sem er á jörðu niðri, sæti og gangar verða breiðari, gluggar um tvöfalt stærri en nú tíðkast og allur tækni- og afþreyingarbúnaður um borð verður fyrsta flokks.

Fyrir áhugasama má sjá frekar upplýsingar og myndir á síðu 787 Dreamliner .