Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing, sem í gær gaf út afkomuviðvörun fyrir fyrsta ársfjórðung, tilkynnti einnig seinni partinn í gær að félagið myndi hægja á framleiðslu sinni á næsta ár og að öllum líkindum einnig árið 2011.

Bæði Boeing og evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hafa fundið verulega fyrir efnahagsástandinu í heiminum. Þar koma nokkrir þættir til. Í fyrsta lagi hefur allur rekstrarkostnaður hækkað verulega, svo sem launakostnaður, varahlutir, framleiðsluþættir og tæknivinna.

Þá hafa tafir á afhendingu flugvéla einnig orðið til þess að viðskiptavinir hafa hætt við pantanir en afhending Boeing 787 Dreamliner, nýjasta flaggskipi Boeing hefur nú tafist um tæp tvö ár og eins hafa orðið tafir í framleiðslu á Airbus A380 (tveggja hæða breiðþotunni) og enn er óljóst hvenær nýjasta vél Airbus, A350 (sem á að vera svar Airbus við Boeing 787 Dreamliner) verður afhent en ljóst er að það verður ekki á næsta ári eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

Í þriðja lagi hefur efnahagsástandið einnig orðið til þess, og það vegur þyngst í rekstri flugvélaframleiðandanna, að flugfélög út um allan heim hafa ýmist hætt við eða frestað pöntunum sínum, sum hver um óákveðin tíma. Sem dæmi má nefna að frá því í nóvember hefur Boeing borist fleiri afpantanir en nýjar pantanir og með sama áframhaldi er útlitið alls ekki gott. Nú þegar hefur 33 vélar verið afpantaðar á þessu ári en áætluð afhending þeirra var áætluð á seinni hluta næsta árs.

Erfiðleikarnir byrja að segja til sín á næsta ári

Í raun mun framleiðslan út þetta ár vera með hefðbundnu sniði þar sem verið er að afhenta vélar sem löngu hafa verið pantaðar og í mörgum tilfellum búið að greiða fyrir, ýmist að fullu eða að hluta til. Þó hefur framleiðslukostnaður hækkað sem fyrr segir en ekki þannig að félagið tapi á framleiðslunni þar sem gert er ráð fyrir þeim kostnaðarbreytingum við verðlagningu vélanna. Það er síðan á næsta ári sem, að öllu óbreyttu, draga þarf úr framleiðslu.

Greiningaraðilar vestanhafs hafa gert ráð fyrir að hagnaður Boeing á fyrsta ársfjórðungi verði 1,19 dalir á hvern hlut en á sama tíma í fyrra hagnaðist félagið um 1,61 dal á hvern hlut. Í gær tilkynnti Boeing að félagið myndi að öllum líkindum ekki ná þessum hagnaði.

Boeing (líkt og Airbus) verðleggur vélar sínar um ári áður þær eru afhentar en við verðlagningu vélanna er tekið tillit til ýmissa þátta, s.s. eldsneytisverðs, álverðs, launaþróunar starfsmanna og svo frv. Þá er einnig tekið mið af verðum samkeppnisaðila og „kröfum markaðarins“ eins og það er orðað í frétt Bloomberg fréttaveitunnar en ljóst er að nú eru gerðar kröfur um ódýrari vélar en áður vegna efnahagsástandsins. Talsmaður Boeing sagði þó í gær að félagið gæti ekki orðið við þeim kröfum til fulls þar sem verð vélanna myndi þá varla duga fyrir framleiðslukostnaði.

í júní á næsta ári mun félagið minnka framleiðslu sína á Boeing 777 vélunum og stefnir að afhendingu fimm véla á mánuði í stað sjö. Þá verður einnig hægt á framleiðslu 747-8 (sem er stærsta týpan af 747 júmbó þotunum) og 767 breiðþotunni. Hins vegar verður ekkert hægt á framleiðslu 737 vélanna en þær eru mest seldu vélar félagsins í dag.

Rétt er að hafa í huga að ef fer sem horfi, þ.e. að Boeing hægi á framleiðslu sinni eins og boðað er, mun það hafa veruleg áhrif á birgja félagsins, svo sem General Electric, Rolls Royce og varahlutaframleiðendur á borð við Spirit Aerosystems, Goodrich og Rockwell Collins.