Brasilía er orðið efnahagsstórveldi. Þetta stærsta land Suður-Ameríku býr yfir miklum náttúruauðlindum og tækifærum sem vel
hefur gengið að nýta síðustu ár. Valdimar Halldórsson hagfræðingur ferðaðist nýlega um Suður-Ameríku og kynntist af eigin
raun ævintýralegum uppgangi í Brasilíu.

--------------------

Brasilía er bæði stórt og fjölmennt land og jafnvel má segja að það sé gósenland sé horft til allra náttúruauðlindanna sem þar finnast. Í nýlegri spá frá Goldman Sachs kemur fram að Brasilía verði orðið fjórða stærsta hagkerfi heims árið 2050 – mun stærra en Japan, Þýskaland og Bretland. Eftir methagvöxt á árinu 2010 er landið nú sjöunda stærsta hagkerfi heims. Brasilía er nærri því helmingur allrar Suður-Ameríku að stærð og er langfjölmennasta ríki álfunnar. Um helmingur af landinu er skógi vaxinn og stór landsvæði eru friðuð vegna einstaks dýralífs og náttúrufyrirbrigða (t.d. Amazon og Pantanal). Þótt landið sé hið eina í álfunni þar sem portúgalska (en ekki spænska) er töluð tengist Brasilía óneitanlega flestum öðrum ríkjum álfunnar enda á það landamæri að öllum ríkjum S-Ameríku utan Chíle og Ekvador. Landfræðilega er Brasilía því eins konar móðurríki S-Ameríku. Brasilía er fimmta stærsta ríki heims mælt í ferkílómetrum. Landið er líka fimmta fjölmennasta ríki heims og á þessu ári eru íbúar taldir vera nærri 200 milljónir. Þéttbýlast er í suðurhluta landsins þar sem stærstu borgirnar eru. Íbúum í þéttbýli hefur hlutfallslega fjölgað á síðustu árum og eru nú um 81% íbúafjöldans. Fjölmennasta borgin er Sao Paulo, tæplega 20 milljónir íbúa með úthverfum, og þar er mekka ýmiss iðnaðar. Íbúar Rio de Janeiro og úthverfa eru um 12 milljónir og þar blómstrar ferðaþjónustan en einnig önnur þjónusta og iðnaður.

Brasilía
Brasilía
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Dilma Rousseff nýr forseti

Líkt og í nágrannaríkinu Argentínu er kona nú forseti landsins. Hún heitir Dilma Rousseff og er 63 ára gömul og hagfræðingur að mennt. Hún tók við sem forseti þann 1. janúar 2011 af hinum vinsæla Lula da Silva sem stýrði landinu í átta ár við góðan orðstír. Rousseff varð fyrsti kvenforseti í sögu Brasilíu. Bæði Rousseff og Lula da Silva eru meðlimir í Sósíalíska verkamannaflokknum í Brasilíu (e. Workers Party, á portúgölsku; Partido dos Trabalhadores – PT). Lula var einn stofnenda PT flokksins og hann komst með flokk sinn í ríkisstjórn árið 2003. Eftir kosningarnar árið 2010 varð PT stærsti flokkurinn í Brasilíu í fyrsta sinn. Áður en Rousseff sigraði í forsetakosningunum í lok árs 2010 hafði hún gegnt lykilstöðum fyrir PT og ríkisstjórn Lula og m.a. verið orkumálaráðherra árin 2003- 2005 og ráðherra við hlið forsetans (e. chief of staff of the presidency) árin 2005-2010. Lula er sagður hafa treyst Rousseff vel og hvatt hana til að bjóða sig fram.

Erfitt að taka við af Lula

Hlutskipti Rousseff að taka við af Lula da Silva er ekki létt þar sem hann er oft talinn vinsælasti stjórnmálamaður í sögu brasilískra stjórnmála. Valdatími hans í forsetastóli er eitt mesta hagvaxtarskeið í sögu Brasilíu. Það sem þó skýrði vinsældir Lula öðru fremur var alþýðlegt viðmót hans við íbúa landsins og einnig náði hann víða eyrum erlendra þjóðarleiðtoga vegna sjálfstæðra viðhorfa. Það sem mestu skipti heima fyrir voru mjög skipulegar aðgerðir til að minnka fátækt og þar með fjölga í millistétt. Stærsta einstaka aðgerðin í þessa veru var kölluð „Bolsa Família“ og hafði það að markmiði að bæta menntun og efnahagslega stöðu fátæks fólks, m.a. með beingreiðslum til barna og unglinga til að geta menntað sig. Á nokkrum árum náði ríkisstjórn Lula að minnka skilgreinda fátækt um tæplega 30%. Á átta ára valdatíma Lula hækkuðu lágmarkslaun um 60% og bilið á milli ríkra og fátækra minnkaði. Þetta bil er þó enn mjög breitt með tilheyrandi félagslegum vandamálum. Þrátt fyrir að Lula og ríkisstjórn hans hafi verið skilgreind sem miðju/vinstri stjórn hafði hún á stefnuskrá sinni að að einfalda skattkerfið og reglur um fjárfestingu inn og út úr landinu. Eftir á að hyggja eru flestir sammála um að það hafi tekist vel til og hefur mikill hagvöxtur á valdatíma hans aukið skatttekjur ríkisins. Þrátt fyrir aukin ríkisgjöld vegna „Bolsa Família“ hafa opinberar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu ekki aukist heldur þvert á móti lækkað. Á fyrstu árum sínum á valdastóli gagnrýndu ýmsir áform Lula og töldu illa farið með almannafé. Árangurinn talaði þó sínu máli og vinsældirnar jukust eftir því sem á leið.

IMF styður Brasilíu

Fram kemur í fundargerð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) úr nýlegri heimsókn Dominique Strauss-Kahn framkvæmdastjóra IMF til Brasilíu nú í byrjun mars að sjóðurinn styðji áframhaldandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að minnka fátækt í landinu. Raunar hefur aðferðafræði ríkisstjórnar Lula í baráttunni við fátækt verið notuð fyrir tilstilli IMF í nokkrum öðrum ríkjum, m.a. Bandaríkjunum. Í yfirlýsingu Strauss-Kahn eftir Brasilíuheimsóknina kom fram að árangur Brasilíumanna í efnahagsmálum eftir kreppuna 2008 væri eftirtektarverður. Strauss-Kahn og IMF vöruðu þó stjórnvöld í Brasilíu við of mikilli þenslu og hvöttu til aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum og áframhaldandi einföldunar á skattkerfinu til að laða að frekari fjárfestingu.

Aukinn stjórnmálalegurstöðugleiki

Segja má að stjórnmálalegur stöðugleiki hafi aukist á valdatíma Lula og erlendir fjárfestar hafa á síðustu árum sýnt Brasilíu mun meiri áhuga en áður var og betur treyst innviðum landsins. Árið 2008 fékk Brasilía fjárfestingareinkunn frá matsfyrirtækinni S&P (BBB-) í fyrsta sinn og hafa önnur matsfyrirtæki fylgt í kjölfarið. Þetta hefur hjálpað til við að auka trúverðugleika á landinu sem fjárfestingarkosti.

Miklar náttúruauðlindir

Brasilía er ótrúlega auðlindaríkt land. Helstu landbúnaðarafurðir eru kaffi, sojabaunir, hveiti, sykur, korn, ávextir og kjöt (nauta- og lambakjöt og kjúklingur). Í landinu er auk þess mikil iðnaðarframleiðsla af ýmsu tagi – ekki síst vélar og tæki fyrir bíla- og flugvélaiðnaðinn. Þá finnst í landinu olía og gas og einnig verðmætir málmar (stál, járn, gull osfrv). Landbúnaðarafurðir voru um 36% af útflutningi landsins árið 2010. Ýmis fjárfestingarvara er einnig mikilvæg útflutningsvara, s.s. íhlutir í flugvélar, vélar & tæki, málmar, vefnaðarvörur ofl. Mikilvægustu viðskiptalönd Brasilíu eru Bandaríkin, Kína og Argentína. Þar á eftir koma Evrópuríki eins og Þýskaland og Holland og svo Japan og önnur ríki S-Ameríku. Vöruskiptajöfnuður var jákvæður í Brasilíu árið 2010 – útflutningur nam 202 mö.USD en innflutningur 188 mö.USD. Horfur fyrir útflutning fyrir næstu ár eru jákvæðar. Nýlegir olíufundir, m.a. úti fyrir Rio de Janeiro, gætu skapað mikil verðmæti fyrir brasilískan efnahag á næstu árum. Auk þess er mikil spurn eftir flestum af helstu hrávörum í Brasilíu, þ.m.t. landbúnaðarafurðum. Þjónustutengdar greinar standa undir tæplega 66% af landsframleiðslu Brasilíu, iðnaður vegur 29% og landbúnaður um 6% af VLF.

BRIC löndin

Brasilía tilheyrir svokölluðum nýmarkaðsríkjum og er eitt BRIC landanna fjögurra með Rússlandi, Indlandi og Kína, sem vaxið hafa hraðar en flest þróuð ríki í Evrópu og N-Ameríku undanfarin ár. Margir fjárfestar hafa sérstaklega horft til þessara landa nokkur síðustu árin með góðum árangri. Íslensku lífeyrissjóðirnir eru þar á meðal og eiga sumir þeirra hlutdeild í hlutabréfasjóðum sem horfa sérstaklega til þessara fjögurra ríkja. Það var fjárfestingarbankinn Goldman Sachs sem fór að skilgreina þessi fjögur ríki sem BRIC löndin vegna þess að þetta eru þau ríki sem hafa mest vaxtartækifæri horft til næstu áratuga. Löndin fjögur ná yfir 25% af öllu landi á jörðinni og 40% af íbúafjöldanum. Öll löndin hafa á síðustu árum verið að opnast með stórauknum alþjóðlegum viðskiptum. Hagur millistéttarinnar í þessum ríkjum hefur vænkast á síðustu árum og spár benda til aukins kaupmáttar vegna aukinnar menntunar og skynsamari stefnu í efnahagsmálum. Stjórnmálaog efnahagslegt samstarf þessara fjögurra landa hefur smám saman aukist að undanförnu og er áformað frekara samstarf. Of snemmt er að segja til um hvort þetta samstarf endar með formlegu viðskiptabandalagi. Goldman Sachs spáir því að BRIC löndin fjögur verði öll komin á meðal sex stærstu hagkerfa heims árið 2050.

Mikill hagvöxtur árið 2010

Hagvöxtur í Brasilíu nam 7,5% árið 2010. Þar með er brasilíska hagkerfið orðið stærra en það ítalska og er því sjöunda stærsta hagkerfi heims. Ef hagvaxtarspár rætast fyrir allra næstu ár stefnir í að hagkerfið í Brasilíu verði orðið stærra en það breska og franska og þar með fimmta stærsta á eftir því bandaríska, kínverska, japanska og þýska. Úrvalsvísitala hlutabréfamarkaðarins í Brasilíu (IbrX-50) lækkaði lítillega á árinu 2010 (-3%) eftir að hafa hækkað gríðarlega á árinu 2009 (+60%).

Minni hagvexti spáð árið 2011

IMF spáir 4,1% hagvexti í Brasilíu fyrir árið 2011. Aðalverkefni Rousseff í efnahagsmálum er að varna því að hagkerfið ofhitni. Verðbólga hefur hækkað undanfarið og fór í 6% á árinu 2010. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt um talsverðan niðurskurð á ríkisútgjöldum til að lækka verðbólgu og minnka líkur á eignabólu á eignamörkuðum. Þá hefur Seðlabanki Brasilíu nýlega hækkað stýrivexti úr 11,25% í 11,75% til að sporna gegn þenslu. Auk þess er mikilvægt að gjaldmiðillinn í landinu (Real) styrkist ekki meira en orðið er til að aðstæður fyrir útflutning versni ekki. Þrátt fyrir nokkuð sterkt gengi hins brasilíska Real eru ytri aðstæður að mörgu leyti mjög hagfelldar fyrir brasilíska hagkerfið. Þannig hefur verð á flestum hrávörum hækkað umtalsvert undanfarið sem kemur sér vel fyrir hagkerfið, bæði hinar dreifðari byggðir og þéttbýlið.

Þenslueinkenni til staðar

Hinn mikli hagvöxtur og tiltölulega háir vextir hafa leitt til aukins innflæðis fjármagns til Brasilíu. Gjaldmiðillinn hefur styrkst um nærri 40% síðan í ársbyrjun 2009. Stjórnvöld hafa brugðist við þessu með því að auka dollaraforða sinn og einnig nýlega aukið eftirlit með fjármagnsflutningum til landsins. Skuldastaða hins opinbera er þokkalega ásættanleg og nam 41% af VLF árið 2010. Flestir greinendur eru sammála um að helsta hætta sem steðjar að efnahagslífinu í Brasilíu sé ofhitnun með vaxandi verðbólgu. Meðalverðbólguspá fyrir árið 2011 er 5,8% sem er yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Brasilíu (markmiðið er 4,5% með +/- 2% vikmörk). Rousseff tilkynnti nýlega um talsverðan aukaniðurskurð á ríkisútgjöldum til þess að slá á verðbólgu. Sú ákvörðun lagðist almennt vel í greinendur og fjárfesta. Greinendur spá minni verðbólgu árið 2012, eða 4,8%. Flestir greinendur spá því að stýrivextir hækki úr 11,75% í 12,25% við næstu vaxtaákvörðun þann 20. apríl nk.

Enn slök lífskjör

Þrátt fyrir mikinn árangur í efnahagslífinu í Brasilíu á síðustu árum eru lífskjör hjá íbúum landsins enn slök í samanburði við þróuð hagkerfi. Þetta er greinilegt þegar ferðast er um borgir og dreifbýli landsins. Þannig er landsframleiðsla á mann einungis ríflega 10.000 USD í landinu samanborið við tæplega 50.000 USD í Bandaríkjunum og um 40.000 USD á Íslandi. Brasilía er í 55. sæti yfir ríkustu lönd í heimi samkvæmt landsframleiðslumælikvarðanum. Húsakostur íbúa landsins er að meðaltali mun fábreyttari en við eigum að venjast á Íslandi og í okkar helstu samanburðarlöndum. Hið sama má segja um ýmsa innviði í landinu þó að framþróun hafi orðið á mörgum sviðum á allra síðustu árum. Bílar eru ótrúlega gamlir í samanburði við Ísland og nágrannaríki. Algeng sjón í Brasilíu eru 20-40 ára gamlir fólks- og flutningabílar sem enn eru í fullri notkun. Þrátt fyrir hlutfallslega fjölgun í millistétt á allra síðustu árum eru fátækrarhverfi (e. favelas) flestra stórra borga, líkt og Sao Paulo og Rio de Janeiro, mjög stór og félagsleg vandamál (s.s. glæpir og sala á eiturlyfjum) tengd þeim mikil. Stundum skilja einungis nokkrir metrar fátækrahverfin frá betur stæðari heimilum en samgangur er lítill þrátt fyrir að allir tali sama tungumálið. Ljóst er að á næstu árum verður áfram mikil vinna fyrir stjórnvöld í Brasilíu að minnka fátækt og gera fleirum íbúum landsins kleift að mennta sig og bæta lífskjör sín. Þótt fjölgað hafi í millistétt hlutfallslega á síðustu árum eru enn tugir milljóna íbúa í landinu sem lifa undir fátæktarmörkum.

Miklir flutningar

Brasilía er risi í landbúnaðarframleiðslu. Þetta sést glöggt þegar ekið er um dreifbýli landsins í mið- og suðurhluta landsins. Endalausir akrar með sojabaunum, sykurrey og korni eru algeng sjón. Ekki má heldur gleyma hinum ljóslitu nautgripum sem eru í þúsundatali á túnum og í skóglendi í dreifbýlinu. Vegna mikillar hrávöruframleiðslu víða um landið og stærð þess eru gríðarlegir flutningar á misgóðum vegum í Brasilíu. Meðalaldur flutningabíla í Brasilíu er hár og mengun af þeirra völdum mikil. Með bættum lífskjörum mun vegakerfið batna og það hefur raunar batnað síðustu ár að sögn heimamanna. Eins er líklegt að hraðari endurnýjun verði á bílaflotanum á næstunni. Brasilía er því mikilvægur markaður fyrir helstu bílaframleiðendur horft til næstu ára. Vegna hrávöruframleiðslunnar og aukinna alþjóðaviðskipta eru sjóflutningar til Kína og Bandaríkjanna miklir og fara vaxandi. Helstu skipafélög heims munu horfa til Brasilíu í leit að auknum viðskiptum. Danska skipafélagið Maersk hefur sterka stöðu í Brasilíu og mörgum öðrum ríkjum S-Ameríku eins og glöggt má sjá þegar keyrt er framhjá höfnum stórborganna.

HM 2014 og Olympíuleikar 2016

Ferðaþjónustunni hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum í Brasilíu og er stór atvinnuvegur. Þetta er greinilegt þegar gengið er um götur Sáu Paulo, Rio de Janeiro eða þegar Foz do Iguaçu fossarnir í suðurhluta landsins eru skoðaðir. Alls staðar er afþreying fyrir ferðamenn. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu hafa aukist á síðustu árum. Undantekningin er árið 2009 þegar erlendum ferðamönnum fækkaði í kjölfar heimskreppunnar. Árið 2010 var gott fyrir ferðaþjónustuna, bæði vegna aukinna ferðalaga Brasilíumanna sjálfra en einnig vegna aukningar í komu erlendra ferðamanna. Að vísu hefur sterkt gengi gjaldmiðilsins valdið því að nú er ódýrara fyrir Brasilíumenn að ferðast til útlanda og að sama skapi hefur verðlag fyrir erlenda ferðamenn hækkað í landinu. Hvernig sem gengi gjaldmiðilsins þróast er ljóst að framundan er spennandi tími fyrir ferðaþjónustuna. Heimsmeistarakeppnin í fótbolta verður haldin í Brasilíu árið 2014 – það verður sannkallaður risaviðburður. Sumir segja að þessi viðburður ásamt efnahagsmálunum verði einn stærsti prófsteinn fyrir nýkjörinn forseta landsins, Rousseff. Árið 2016 verða svo Ólympíuleikarnir haldnir í Rio de Janeiro með tilheyrandi umsvifum.

Frábært land að heimsækja

Fyrir ferðamenn er Brasilía áhugavert land að heimsækja. Stórborgirnar Rio de Janeiro og Sao Paulo eru hálfgerður suðupottur mannlífs úr öllum stéttum. Margir staðir og þjóðgarðar í dreifbýlinu eru einstakir vegna náttúrufegurðar og fjölbreytts dýralífs. Þrátt fyrir vaxandi ferðaþjónustu í landinu er enskukunnátta heimamanna enn léleg og flestir tala einungis portúgölsku eða spænsku. Viðmót fólks, hvort sem er í þéttbýli eða í dreifbýli, er oftast gott og flestir hjálplegir, kurteisir og glaðlegir. Þó eru borgir Brasilíu langt því frá hættulausar. Þröngar götur með mikilli umferð og mikilli svartri sölustarfsemi valda því að lögregla á oft erfitt með eftirlit og þjófnaðir og glæpir eru mun algengari en tíðkast í flestum borgum á Vesturlöndum. Þótt stéttaskipting sé mikil er ýmislegt sem sameinar brasilísku þjóðarsálina hvort sem um er að ræða hvíta (55% íbúa), svarta (6%) eða fólk af blönduðum kynstofni (39%). Þar má nefna trúgirni, tónlistar- og dansáhuga og svo er fótbolti í hávegum hafður víðast hvar. Eitt er víst – það verða margir sem munu ferðast til Brasilíu til að fylgjast með HM 2014.

Höfundur starfar hjá IFS Greiningu og er nýlega kominn úr 8 vikna ferð um S-Ameríku