Viðskiptanefnd bresku lávarðadeildarinnar telur að regluverk bankanna hafi verið stórlega gallað og rekja megi vandræðagang breska fjármálageirann til þess að skortur hafi verið á samskiptum milli stofnana og jafnvel óljóst með hlutverk sumra þeirra.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu nefndarinnar um efnahagsástandið þar í landi en nefndin telur að hrun breska bankans Northern Rock (sem reyndar var þjóðnýttur til að komast hjá gjaldþroti) sé besta dæmið um ágallana í regluverki bankanna. Þá tekur nefndin fram að laga þurfi regluverkið hið snarasta.

Breska blaðið The Daily Telegraph segir að skýrslan muni koma sér mjög illa fyrir Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands því nefnd lávarðadeildarinnar gagnrýnir helst þær breytingar sem gerðar voru á fjármálaráðherratíð Brown, m.a. breytingar á hlutverki Englandsbanka og breska fjármálaeftirlitsins.

Enginn stjórnandi í krísu

Skýrsla nefndarinnar er að mörgu leyti samhljóma nýlegri skýrslu fjármálanefndar breska þingsins. Í skýrslunni er hin svokallaða þrefalda stjórn fjármálageirans (e. tripartite financial authorities) harðlega gagnrýnd, þ.e. hlutverk fjármálaráðuneytisins, Englandsbanka og breska fjármálaeftirlitsins. Nefndin tekur fram að hlutverk þessa þriggja aðila sé óljós og stangist í einhverjum tilvikum á, sem síðan geri það að verkum að þessum aðilum tekst ekki að uppfylla sitt eina sameiginlega markmið; að tryggja efnahagslegan stöðugleika.

Í tilfelli Northern Rock segir nefndin að kenna megi samskiptaleysi og milli þessa þriggja aðila að miklu leyti um hrun bankans. Í Telegraph kemur fram að nefndin sýni þessu þó ákveðin skilning þar sem um sé að kenna gölluðu regluverki.

Nefndin tekur fram í skýrslu sinni að Englandsbanki þurfi að fá víðtækari heimildir til að taka yfir rekstur banka við krísuaðstæður. Þannig telur nefndin að ekki sé nógu skýrt í lögum um fjármálastarfsemi hver það er sem fari með stjórnina þegar upp kemur krísa.

Þá leggur nefndin til að allt eftirlitshlutverk með bankakerfinu verði tekið af breska fjármálaeftirlitinu og fært yfir til Englandsbanka. Þá er breska fjármálaeftirlitið harðlega gagnrýnt fyrir að einbeita sér um of að viðskiptavinum bankanna í stað þess að fylgjast með því að bankarnir uppfylltu reglur um fjármálastarfssemi, s.s. útlán og eigiðfjárhlutfall.

„Án frekari heimilda getur Englandsbanki lítið annað gert en að tala um og sett fram stefnu um efnahagslegan stöðuleika. Þetta gerir bankann vanmáttugan til að bregðast við breyttum aðstæðum þegar á þarf að halda,“ segir í skýrslunni.

Vilja meira vald yfir útibúum erlendra banka í Bretlandi

En skýrslan tekur á fleiri þáttum. Í sérstökum kafla er tekið skýrt fram að nefndin leggi það til að breskum yfirvöldum verið látið í té auknar heimildir yfir erlendum bönkum með starfssemi í Bretlandi og nefnir Telegraph dæmi um Icesave reikningana sem hafi orðið til þess að gallar regluverksins urðu öllum augljósir en einnig tekur blaðið dæmi af bandaríska bankanum Lehman Brothers, en bresk yfirvöld gruna bankann um að hafa millifært um 8 milljarða Bandaríkjadali af breskum reikningum yfir til Bandaríkjanna nokkrum dögum fyrir hrun bankans um miðjan september s.l.

„Þegar upp kemur krísa vill það gerast að fjármagnið flýr til heimalands bankans og breskir skattgreiðendur sitja uppi með reikninginn,“ segir í skýrslunni og hvatt er til þess að tekið verði á þessum hætti eins fljótt og auðið er.