Breska flugfélagið British Airways leitar nú enn leiða til að spara rekstrarkostnað og hefur nú farið fram á við starfsmenn félagsins um að frysta allar launahækkanir í minnst tvö ár.

Þetta kemur fram á vef BBC en British Airways bað starfsmenn nýlega um að vinna í allt að mánuð án þess að fá greitt til að koma í veg fyrir uppsagnir.

Félagið hefur þó tilkynnt að segja þurfi upp allt að 3.000 manns á næstu 18-24 mánuðum en helstu stjórnendur British Airways hafa hvað eftir annað sagst vilja forðast uppsagnir eins og hægt er. Þess vegna hafi verið gripið til þess ráðs að biðja starfsmenn um að vinna launalaust í nokkrar vikur og nú að laun þeirra verði fryst, þ.e. ekki hækkuð, næstu tvö árin.

Félagið getur samið beint við starfsmenn um að vinna launalaust í ákveðinn tíma. Slíkar viðræður þurfa ekki að fara fram í gegnum stéttarfélög. British Airways ræddi þó fyrst við stéttarfélög starfsmanna fyrir kurteisissakir og það kann, að sögn Reuters fréttastofunnar sem fjallar einnig um málið í dag, að liðka fyrir viðræðum nú þegar British Airways leitast eftir því að frysta launahækkanir.

Alls hafa um 800 starfsmenn félagsins samþykkt að vinna launalaust í allt að mánuð. Það fer þannig fram að þeir vinna nokkra daga í mánuði launalaust til að missa ekki heil mánaðarlaun í einu bragði. Þá hafa um 4.000 starfsmenn samþykkt að taka launalaus leyfi, um 1.400 manns hafa minnkað starfshlutfall og um 740 starfsmenn annars staðar en í Bretlandi hafa samþykkt stórfelldan niðurskurð á kaupum og kjörum er kemur að niðurgreiddum kostnaði. Rúmlega 40.000 manns starfa hjá British Airways.

Forstjóri félagsins, Willie Walsh, mun starfa launalaust í júlímánuði en hann er með um 61 þúsund Sterlingspund á mánuði í laun.