Íslendingar hafa fundið fyrir hækkuðu bensín og olíuverði að undanförnu. Algengt verð af bensínsjálfsölum er nú um 203,60 krónur lítrinn og sama verð er á dísilolíunni og sterkar líkur á að það eigi eftir að hækka enn frekar á næstunni. Ástæður þessara hækkana eru raktar til kulda í Evrópu að undanförnu.

Ekki hærra í tvö ár

Á heimsmarkaði er verðið nú með því hæsta sem sést hefur í tvö ár. Þessa stundina er olíuverðið hjá Brent Crude Oil í London skráð á 91,42 dollara tunnan og hefur hækkað um nærri fimm dollara á tunnu á innan við viku. Hjá WTI í New York er verðið 89,44 dollarar og er verðið nú svipað og í byrjun október 2008.

Skiptar skoðanir

Margir sérfræðingar telja samt ekki innistæðu fyrir frekari hækkunum vegna slaks efnahagsástands. Lítil teikn séu á lofti að úr því rætist að ráði næstu misserin. Kuldar í Evrópu að undanförnu hafa aftur á móti skekkt þessar spár og aukið eftirspurnina, allavega tímabundið. Enn aðrir telja að hækkanir nú séu aðeins fyrirboði þess sem koma skal. Olíuframleiðslan í heiminum muni brátt ná hámarki og fari að minnka eftir tæpan áratug. Það muni leiða til enn meiri verðhækkana en áður hefur sést.

Nálgast 90 dollara

Allt þetta ár hefur olíuverðið sveiflast frá um 68 dollurum upp í um 87 dollara og er nú komið yfir 91 dollar á tunnu. Þetta er samt mun lægra verð í dollurum talið en þegar það fór hæst í rúmlega 141 dollar á tunnu þann 10. júlí 2008. Eftir það féll olíuverðið ört og fór lægst í um 34,6 dollara á tunnu þann 18. febrúar 2009. Síðan þá hefur olíuverðið farið upp að nýju.

Efnahagskreppan heldur aftur af hækkunum

Sérfræðingar á hrávörumarkaði töldu í vor og sumar að litlar líkur væru á að heimsmarkaðsverð á olíu færi yfir 80 dollara á tunnu nema þá tímabundið. Rökin fyrir því voru að efnahagur heimsins væri enn í lægð og víða samdráttur. Engin innistæða væri því fyrir miklum þrýstingi til hækkunar olíuverðs næstu misserin að minnsta kosti. Á móti kemur að vantrú fjárfesta á fjármálamarkaði hefur leitt til aukinnar sóknar í gull og ýmsa hrávöru eins og olíu sem er þó einkum vettvangur spákaupmanna. Það verður því fróðlegt að sjá hvort svonefndir sérfræðingar á markaðnum hafa rétt fyrir sér og olíuverðið haldist næstu misserin fyrir neðan 80 dollara markið.

Framleiðslutoppnum náð 2015 - 2020

Annar þáttur sem mun hafa áhrif á olíuverðsþróunina næstu árin er sú fullyrðing að brátt fari að verða skortur á olíu í heiminum. Virtur sérfræðingur á þessu sviði, Charles Maxwell, sem stundum er nefndur „deildarforseti olíusérfræðinganna" eða „The Dean of Oil Analysts”, segir að hámarksframleiðslu verði brátt náð. Það muni gerast á árunum 2015 til 2020. Eftir það fari olíuframleiðslan í heiminum minnkandi. Toppnum verði náð 2015 og að sá framleiðslutoppur muni hugsanlega haldast í fjögur til fimm ár. Ef menn vilji vera nákvæmari veðjar Maxwell á árin 2017 eða 2018 sem tímamóta ár í þessu samhengi.

Er norðurheimskautið næsti olíupottur?

Ekki eru þó allir tilbúnir að taka undir þessa spá Maxwell og benda á að gríðarlega olíu sé að finna undir sjávarbotni á norðurheimsskautssvæðinu. Allavega virðast Kanadamenn, Grænlendingar, Bandaríkjamenn, Rússar og Norðmenn veðja á slíkt og fer spennan vaxandi um að ná yfirráðum yfir mögulegum olíulindum á norðurhjara.