Embættismenn forsætisráðuneytisins sendu sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) frumvarp laga um Seðlabankann í enskri þýðingu í tölvupósti sl. föstudag til upplýsingar.

Því var síðan fylgt eftir í símtali að ábendingar frá sérfræðingum sjóðsins varðandi fyrirliggjandi frumvarp væru vel þegnar.

Þetta kemur fram í skriflegu svari ráðuneytisins en Viðskiptablaðið fór fram á upplýsingar frá forsætisráðuneytinu varðandi samskipti ráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi frumvarpið.

Í svari Ragnhildar Arnljótsdóttur, ráðuneytisstjóra kemur fram að beiðnin var ítrekuð síðastliðinn mánudag og óskað eftir formlegri og opinberri umsögn þegar ljóst var að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði mjög ríka áherslu á að trúnaður fylgdi fyrstu ábendingum sem sendar voru til forsætisráðuneytisins í tölvupósti um sl. helgi.

„Þarna er sjóðurinn að fylgja afar ströngum vinnureglum sem íslenskum stjórnvöldum ber að virða,“ segir Ragnhildur í svari sínu.

Forsætisráðherra vissi ekki af athugasemdum IMF

Frumvarpið, sem nú er til umræðu hjá viðskiptanefnd Alþingis, hefur verið talsvert í umræðunni undanfarið.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu á mánudagskvöld kom fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði gert tæknilegar athugasemdir við frumvarpið.

Fyrr um daginn hafði Birgir Ármannson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurt Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra út í athugasemdir sjóðsins á Alþingi og var henni þá ekki kunnugt um að ráðuneytinu hefði borist umsögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í viðtali við Smuguna , vefmiðil Vinstri grænna í gær segir Birgir að á fundi viðskiptanefndar í gærmorgun hefðu embættismenn ráðuneytisins staðfest bréfið um helgina en að þeir hefðu ekki greint forsætisráðherra frá innihaldi þess fyrr en eftir þingumræðurnar á mánudag.

Þetta staðfestir Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG einnig í samtali við Smuguna.

„Mér finnst það nú líka vera hálfgert klúður í forsætisráðuneytinu ef forsætisráðherra hefur ekki verið upplýstur um þetta,“ segir Birgir í samtali við Smuguna.

„Einfaldlega vegna þess að hér um að ræða mál sem forsætisráðherra sjálf hefur lagt alveg gríðarlega mikla áherslu á að ætti að vera forgangsmál í þinginu og lag kapp á koma því í gegn.“

Ráðuneytið vildi bæði upplýsa og fá athugasemdir frá IMF

Aðspurð um tilefni þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi verið sent frumvarpið, hvort það var til upplýsinga eða til að leita eftir athugasemdum sjóðsins, segir Ragnhildur að tilefnið hafi verið tvíþætt.

Annars vegar að tryggja gott upplýsingastreymi á milli íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi allar hugsanlegar breytingar sem varða fjármálakerfið á Íslandi og endurreisn þess. Það sé talið mikilvægt þar í gildi sé sameiginleg efnahagsáætlun þessara aðila.

Hins vegar hafi tilefnið verið að sem flestir fengju frumvarpið til umsagnar þannig að sjónarmið sem flestra kæmu fram og að þær [athugasemdir sjóðsins, innsk.blaðamanns] gætu komið til umfjöllunar á Alþingi á meðan það hefði málið til umfjöllunar.

Gagnrýnir leynd

Þá hefur Birgir gagnrýnt þá leynd sem liggur yfir athugasemdum sjóðsins. Í viðtalinu við Smuguna segir Birgir að sér finnist óskiljanlegt að það skuli hvíla leynd yfir bréfinu.

„Í fyrsta lagi vegna þess að málið er auðvitað komið í hendur þingsins frá forsætisráðuneytinu. Þannig að allar athugasemdir hljóta að eiga erindi til Þingsins en ekki til ráðuneytisins,“ segir Birgir í samtali við Smuguna.

„Síðan er það svo annað mál að forsætisráðuneytið sagði í fréttatilkynningu í gær að þarna væri um tæknilegar athugasemdir að ræða. Því síður ætti að þurfa að vera leynd yfir efni slíkra athugasemda.“

Viðskiptablaðið fór þess á leit við forsætisráðuneytið að fá að sjá þau gögn sem borist hefðu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, í það minnsta upplýsingar um samskipti ráðuneytisins við sjóðinn þar sem unnið sé að því að aflétta leyndi yfir athugasemdunum sjálfum.

IMF vill senda formlegt bréf með efnislegum athugasemdum

Í svari ráðuneytisins kemur fram, líkt og greint er frá hér í upphafi, að tölvupóstur hafi verið sendur frá embættismönnum í forsætisráðuneytinu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sl. föstudag þar sem frumvarpið var sent til upplýsingar í enskri þýðingu. Þeim tölvupóstsendingunni var fylgt eftir með símtali embættismanns.

Hins vegar hafi í þeim tölvupósti sem sérfræðingar sjóðsins sendum embættismönnum í ráðuneytinu um sl. helgi komið fram mjög ákveðnir skriflegir fyrirvarar um að ráðuneytinu bæri að virða trúnað varðandi hið stutta bráðabirgðamat á fram komnu frumvarpi til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands.

„Forsætisráðuneytið leggur hins vegar áherslu á að athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði birtar sem fyrst opinberlega og sendar viðskiptanefnd Alþingis sem hefur nú frumvarpið til umfjöllunar,“ segir Ragnhildur í svari sínu til Viðskiptablaðsins.

Hún segir að ráðuneytið hefði haft samband við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sl. mánudag og óskaði eftir því að þessum trúnaði yrði aflétt en á það hefði ekki verið fallist.

Hins vegar hefðu fulltrúar sjóðsins óskað eftir því að senda formlega opinbert bréf með efnislegum athugasemdum við frumvarpið.

Þá kemur einnig fram í svari Ragnhildar að ráðuneytið hafi síðan ítrekað verið í sambani við fulltrúa sjóðsins til þess að ýta á eftir því að hin formlega og opinbera umsögn berist.

„Vonast er eftir því að umsögnin berist hið fyrsta þannig að allir, viðskiptanefnd Alþingis, almenningur og sérhver annar sem málið varðar eða áhuga kann að hafa á því geti kynnt sér umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,“ segir Ragnhildur í svari sínu og að hugsanlega verði það í dag.