Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines, sm er eitt stærsta flugfélag heims, hyggst næsta sumar hefja daglegt áætlunarflug á milli New York og Keflavíkur.

Við fyrstu sýn kemur tilkynning Delta undarlega fyrir sjónir þar sem erfitt er að sjá hversu mikill markaður er fyrir aukna samkeppni í flugi frá New York til Keflavíkur án áframhaldandi tengiflugs til Evrópu. Delta hyggst fljúga á Beoing 757-200 vélum (sama tegund og Icelandair notar) en vélarnar eru stórar og ljóst að flugleggurinn ber sig ekki nema vélarnar verði þétt setnar.

Viðskiptablaðið leitaði svara hjá Delta fyrir fyriráætlun félagsins að hefja flug til Íslands. Í svari Delta kemur fram að félagið hafi um árabil unnið að því að byggja upp starfstöð sína á John F. Kennedy flugvelli (JFK) í New York og gera hann að tengimiðstöð, bæði innan Bandaríkjanna sem og yfir Atlantshafið.

Í svari Delta kemur jafnframt fram að farþegar félagsins hafa möguleika á því að tengjast til yfir 50 áfangastaða beint frá JFK. Þannig geti viðskiptavinir Delta flogið nær hvaðan sem er í Bandaríkjunum til Íslands með millilendingu á JFK. Þá muni aukið flug frá New York til Íslands auka ferðamannastrauminn hér á landi.

Þá kemur jafnframt fram að Íslendingum standi það sama til boða, þ.e. að fljúga nær hvert sem er í Bandaríkjunum frá Keflavík með millilendingu í New York.

Ólíklega aðkoma Air France-KLM

Ein kenningin fyrir útspili Delta hefur verið sú að Air France-KLM, sem er náinn samstarfsaðili Delta, hyggist jafnframt hefja flug til Íslands frá París. Í tilkynningu Delta um flugið til Íslands (frá 6. ágúst sl.) er ýjað að gefið í skyn að farþegar geti nýtt sér þjónustu Air France-KLM. Þegar Viðskiptablaðið leitaði svara við þessu voru svörin frá Delta á þann veg að félagið gæti ekki tjáð sig fyrir hönd annarra félaga.

Þessi kenning verður þó að teljast ólíkleg þar sem París og Amsterdam eru meginflugvellir félagsins og þaðan eru flogin daglega mörg flug til Bandaríkjanna.

Hins vegar vekur athygli að á heimasíðu Delta er aðeins hægt að bóka flug í júní og júlí. Það gefur til kynna að félagið hafi enn ekki ákveðið hvort að framhald verði af flugi til Íslands. Það er algengt í flugbransanum að stór flugfélög hafi vélar til afnota sem standa um tíma verkefnalausar og þá eru þau notuð í verkefni sem þetta. Rétt er að rifja upp að fyrir örfáum árum flaug breska flugfélagið British Airways hingað til lands frá Lundúnum en þá voru aðstæður félagsins þannig að það hafði vél til afnota. Um leið og sú vél fór í önnur verkefni var fluginu til Íslands hætt.

Þeir aðilar sem Viðskiptablaðið ræddi vel og er vel kunnugir flugbransanum voru flestir á sama máli, að flugrisinn Delta sé aðeins að láta vita af sér og sé með fluginu til Íslands að senda skilaboð til íslensku flugfélaganna, þá sérstaklega Icelandair – sem er mun minna flugfélag en er samt í harðri samkeppni um flug yfir Atlantshafið – um að ekkert ku vera gefins í þessum bransa.

Þó töldu aðrir viðmælendur blaðsins að útskýringin um JFK sem miðstöð alþjóða- og tengiflugs sé vel á rökum reist og vel kunni að fara svo að Delta muni fljúga á milli JFK og Keflavíkur til frambúðar.

Hvort það er síðan rétt verður tíminn einn að leiða í ljós.