Hlutur skuldabréfa hins opinbera, ríkissjóðs, Íbúðalánasjóðs og sveitarfélaga í eignasafni lífeyrissjóðanna hefur meira en tvöfaldast á undanförnum árum og nemur nú tæpu 41%. Þetta getur haft í för með sér að skattgreiðendur framtíðarinnar muni þurfa að fjármagna lífeyriskerfið, þvert á tilgang þess. Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir kerfið að breytast úr uppsöfnunarkerfi í gegnumstreymiskerfi.

„Hugmyndin að baki einkareknum lífeyrissjóðum er að draga úr byrði ríkissjóðs vegna þess að fleiri lifa lengur, en fjárfesti einkasjóðir í skuldabréfum hins opinbera munu lífeyrisskuldbindingar engu að síður reynast kröfur á hendur skattgreiðendum framtíðarinnar. […] Lífeyrir, hvort sem hann er fjármagnaður eða ekki, er geymd ávísun á tekjur vinnuafls framtíðarinnar.“

Svo mælir Buttonwood, einn að öðru leyti ónefndra pistlahöfunda breska viðskiptatímaritsins Economist, hinn 27. janúar sl. Pistillinn nefnist Skuldin við afa (e. In debt to Grandpa) og fjallar um það hvernig auknar fjárfestingar lífeyrissjóða í skuldabréfum hins opinbera geta myndað svokallaða hringskýringu (e. circular reference), þ.e. þegar síðasta atriðið á löngum lista vísar á það fyrsta. Þetta er það sem börnin myndu, með sínu kjarnyrta tungutaki, sennilega kalla hringavitleysu. Buttonwood rekur í stuttu máli hvernig lífeyrissjóðir fyrirtækja hafa, eftir bitra reynslu af fjárfestingum í hlutabréfum, í auknum mæli fært sig yfir í eignaflokkinn ríkisskuldabréf sem þykja með öruggari fjárfestingarkostum sem til eru.

„Þetta ferli gæti haft ýmsar stórundarlegar afleiðingar í för með sér,“ segir Buttonwood og heldur áfram: „Hvað gerist ef hið opinbera lendir í vanskilum eða lætur skuldirnar hverfa með hjálp verðbólgu, í stað þess að láta kjósendur ganga í gegnum margra ára erfiðleika til þess að greiða skuldirnar? Slíkt myndi leiða af sér gríðarlegt tap lífeyrissjóða. Það yrðu ekki aðeins kampavínssvelgjandi sjóðstjórar sem myndu tapa á greiðslufalli hins opinbera heldur einnig lífeyrisþegar sem eru mikilvægir kjósendur.“

Sýndarveruleiki

Í þessu samhengi má rifja það upp að í lok maí á síðasta ári keyptu 26 lífeyrissjóðir íbúðabréf Íbúðalánasjóðs af Seðlabanka Íslands fyrir 90,2 milljarða króna og greiddu fyrir í erlendum eignum og gjaldeyri. Þá var talað um að kaupin væru liður í því að styrkja gjaldeyrisforðann og flýta fyrir afnámi gjaldeyrishafta en eðlilegt er að spyrja hvort þau séu ekki einmitt gott dæmi um þá hringskýringu sem Buttonwood fjallar um.


lífeyrissjóðir graf
lífeyrissjóðir graf
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana.


Ef hlutfall skuldabréfa sem gefin eru út af ríkissjóði og sveitarfélögum, þ.e. hinu opinbera, af heildareignum lífeyrissjóða er skoðað nánar kemur á daginn að það hefur aukist verulega á undanförnum árum (sjá línurit). Í ársbyrjun 2007 var hlutfallið um 18% en var tæplega 41% í lok síðasta árs. Þetta gefur enn frekara tilefni til vangaveltna um hvort íslenska lífeyriskerfið sé að festast í hringskýringu af því tagi er Buttonwood gerir að yrkisefni sínu.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir það vissulega áhyggjuefni að hlutur skuldabréfa hins opinbera í eignasafni sjóðanna sé að aukast. „Við erum með þeirri þróun hægt og bítandi að breyta lífeyrissjóðakerfinu úr uppsöfnunarkerfi í gegnumstreymiskerfi (e. pay-as-you-go), líkt og gerist með fjármögnun almannatryggingakerfisins. Næstu kynslóðir munu greiða þessar skuldir og því er í eðli sínu um að ræða fráhvarf frá sjóðsöfnun til gegnumstreymiskerfis,“ segir hann.

Jafnframt segir Hrafn að með gjaldeyrishöftunum og lítilli eftirspurn atvinnulífsins eftir lánsfé, sér í lagi eftir hrun hlutabréfamarkaðarins, sé verið að búa til eins konar sýndarveruleika þar sem vöxtum sé haldið niðri með handafli. „Þótt slíkt ástand sé fylgifiskur hrunsins verðum við með öllum tiltækum ráðum að komast út úr þeim veruleika, m.a. með því að aflétta gjaldeyrishöftunum í áföngum, þannig að lífeyrissjóðirnir geti fjárfest erlendis og þar með byggt upp dreifðara eignasafn og minnkað þar með áhættuna vegna efnahagsástandsins hér á landi,“ segir Hrafn.