Icelandic Group rekur nokkurn fjölda verksmiðja erlendis sem fjárfestar hafa áhuga á að kaupa og eru núna í söluferli hjá Framtakssjóðnum. Eftirsóttustu einingarnar eru verksmiðja Seachill í Bretlandi og svo Icelandic USA í Bandaríkjunum. Ýmisir erfiðleikar hafa fylgt rekstri annarra verksmiðja sem reynt hefur verið að koma skikki á undanfarin ár. Nokkur árangur hefur náðst en þó hafa verksmiðjur skilað óviðunandi afkomu samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Starfsemi Icelandic Group á sér langa sögu í Bretlandi. Þekktust er verksmiðja sem rekin er undir nafni Coldwater Seafood sem framleiðir kældar fiskafurðir og hefur lagt meiri áherslu á tilbúna rétti síðustu ár. Sú stefnubreyting hefur samt sem áður ekki skilað sér í meiri hagnaði þrátt fyrir að afurðirnar hafi jafnvel verið verðlaunaðar fyrir gæði.

Önnur verksmiðja í Grimsby, sem rekin er undir merkjum Seachill, er eftirsóknarverð í augum fjárfesta. Sú starfsemi hefur gengið afar vel og þar er framleitt mikið af ferskum fiskafurðum. Meðal annars selur Seachill mikið af laxi til Tesco, stærstu matvöruverslunarkeðju Bretlands. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að Norðmenn hafa sýnt Seachill áhuga.

Icelandic Group starfsstöðvar
Icelandic Group starfsstöðvar
© vb.is (vb.is)

Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.


Erfitt í Þýskalandi

Verksmiðja Icelandic í Þýskalandi undir nafni Pickenpack Hussman & Hahn hefur gengið illa frá sameiningu árið 2005. Gagnrýnt hefur verið að verksmiðjan var keypt of háu verði inn í Icelandic á sínum tíma, en þar réð ríkjum Finnbogi Baldvinsson, núverandi forstjóri Icelandic. Væntingar um hagnað stóðust engan veginn. Hins vegar hefur verið bætt úr undanfarið og útlit fyrir meiri arðsemi af starfseminni.

Önnur verksmiðja á meginlandi Evrópu er í Frakklandi. Sú verksmiðja var áður í eigu Alfesca og er framleiðslugetan sögð mikil. Rekstur þeirrar verksmiðju hefur verið í járnum lengi og vandamálin mörg. Þau snúa meðal annars að ýmsum skuldbindingum verksmiðjunnar og vinnulöggjafar í Frakklandi sem gerir fyrirtækjum erfitt fyrir að segja upp fólki. Ákveðnir sóknarmöguleikar eru þó fyrir hendi nú þegar framboð á hvítfiski er að aukast á meðan verksmiðjum hefur fækkað undanfarin ár.

Góður gangur í Bandaríkjunum

Verksmiðja Icelandic í Bandaríkjunum hefur gengið vel. Sérstaklega eftir að Iceland Seafood, sem voru leifar af gamla sambandsfyrirtækinu, rann á endanum inn í Icelandic. Í millitíðinni var félagið í eigu Sjóvík sem var meðal annars í eigu Ellerts Vigfússonar, fjárfestingarfélagsins Sunds og Ólafs Ólafssonar, kenndur við Samskip.

Styrkleikar Iceland USA er breið framleiðslulína þar sem hægt er að bjóða stórum birgjum breiða línu af vörum. Þar er ekki bara unninn hvítfiskur heldur líka lax, rækja og fleiri tegundir. Eins og í Frakklandi eru tækifæri til að auka framleiðsluna vegna aukins framboðs á hvítfiski og þar með að auka rekstrarhagnað.

Að endingu er verksmiðja í Kína. Sú verksmiðja skiptir nú minna máli en áður. Búið er að loka starfsemi í Qingdao en starfsemin í Dalian miðar að því að framleiða fiskafurðir fyrir Bandaríkjamarkað. Dregið hefur verið úr vinnslu og miðlun fiskafurða um Asíu.

Leiðrétting :  Stjórnendur Icelandic Group hafa komið því á framfæri við ritstjórn Viðskiptablaðsins að ekki er búið að loka starfsemi Icelandic í Qingdao í Kína eins og fram kemur í greininni.

Heildarverðmæti um 340 milljónir evra

Icelandic Group 6 mánaða uppgjör
Icelandic Group 6 mánaða uppgjör
© vb.is (vb.is)

Miðað við síðasta milliuppgjör Icelandic Group frá 30. júní 2010 voru heildareignir félagsins 488 milljónir evra. Eigið fé félagsins var 166 milljónir og skuldir 322 milljónir evra, þar af voru langtímaskuldir 106 milljónir, skattskuldbinding 13 milljónir og skammtímaskuldir 204 milljónir. Ef litið er á eignahlið efnahagsreikningsins sést að veltufjármunir eru 310 milljónir evra og skattainneign 7 milljónir evra.

Hagnaður Icelandic Group fyrir afskriftir (EBITDA) nam 26 milljónum evra á fyrstu sex mánuðum ársins 2010 en var 22 milljónir evra á sama tíma árið áður og 46 milljónir evra fyrir allt árið 2009. Að því gefnu að rekstrarbati félagsins sé hlutfallslega jafn mikill á seinni hluta ársins í fyrra og á þeim fyrri er hægt að gera ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir allt árið 2010 hafi numið 55 milljónum evra.

Miðað við þetta er bókfært verðmæti eiginfjár Icelandic um 160 milljónir evra en tilboð High Liner Foods, sem fjallað hefur verið um, hljóðaði upp á 170 milljónir evra með fyrirvara um hærra verð, leiði áreiðanleikakönnun til jákvæðrar niðurstöðu. Ellert Vigfússon, sem einnig hefur lýst áhuga á að bjóða í félagið ásamt fjárfestingarsjóðnum Better Capital, er sagður hafa verið að hugsa á svipuðum nótum og High Liner Foods.

Miðað við að heildarverðmæti (enterprise value) Icelandic sé 340 milljónir evra (um 53 milljarðar króna) og hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) um 55 milljónir evra, er margfaldarinn sem notaður er við verðlagningu fyrirtækisins 6,2. Það er nokkuð hærri margfaldari miðað við sambærileg fyrirtæki þótt taka eigi slíkan samanburð með fyrirvara.

Greinin birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.