Þegar íslenska ríkið seldi tæplega 40 prósent hlut sinn í Íslenskum Aðalverktökum snemma árs 2003 var kaupandinn Eignarhaldsfélagið AV. Ehf (EAV).  Eigendur þess eru sömu aðilar og standa að baki Drög ehf., félaginu sem Arion banki tók yfir í desember 2009. Bankinn seldi síðan verktakahluta þess félags til Marti Contractors í mars síðastliðnum.

Sagt var frá því í Fréttablaðinu í dag að fyrrum eigendur ÍAV hafi eignast helmingshlut í fyrirtækinu á ný . Viðskiptablaðið fjallaði á sínum tíma ítarlega um endurskipulagningu fyrirtækisins. Fréttaskýring í fjórum hlutum um málið mun birtast á vef blaðsins í dag. Þetta er fjórði hluti hennar.

Bjóðendur töldu söluferlið óeðlilegt

Alls buðu fjórir aðilar í hlutinn og taldi einn þeirra, hópur sem samanstóð af JB Byggingafélagi (JBB) og Trésmiðju Snorra Hjaltasonar (TSH), að framkvæmd sölunnar hefði verið verulega ábótavant og að bjóðendur hefðu klárlega ekki setið við sama borð.

Þeir töldu einnig aðkomu Jóns Sveinssonar, þáverandi formanns einkavæðingarnefndar, að söluferlinu vera óeðlilega því hann var á sama tíma var hann einnig stjórnarformaður ÍAV og starfaði náið með stjórnendum fyrirtækisins, hinum sömu og einkavæðingarnefnd seldi hlut ríkisins í ÍAV.

Íslenska ríkinu stefnt

Einkavæðingarnefnd ákvað að selja EAV hlut ríkisins í ÍAV og í framhaldinu eignaðist félagið allt hlutafé í ÍAV. Í reglum ÍAV um meðferð trúnaðarupplýsinga segir að „trúnaðarupplýsingar séu aldrei birtar án þess að forstjóri eða sá sem hann tilnefnir hafi samþykkt það.“ Því var upplýsingagjöf til annarra bjóðenda í hlut ríkisins háð samþykki stjórnenda ÍAV.

JBB og TSH stefndi íslenskra ríkinu vegna þess að þeir töldu að framkvæmdin hefði stangast á við lög vegna margvíslegra ágalla á undirbúningi og framkvæmd hennar. Þeir kröfðust auk þess að fá viðurkennda skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vegna þess kostnaðar sem þeir lögðu út í með þátttöku í útboðinu, gerð tilboðsins og tapaðs hagnaðar vegna þess að tilboði þeirra var ekki tekið. Héraðsdómur vísaði málinu frá og sýknaði ríkið af bótakröfu. Þeirri niðurstöðu var þó áfrýjað til Hæstaréttar.

Hæstiréttur dæmir framkvæmdina ólögmæta

Hæstiréttur dæmdi framkvæmd á sölu á hlut ríkisins í ÍAV ólögmæta þann 8. maí 2008. Í dómnum sagði að stjórnendur ÍAV hefðu verið fruminnherjar í fyrirtækinu í merkingu þágildandi laga um verðbréfaviðskipti og að þeir hefðu ekki virt ríkar skyldur sem lagðar voru á þá sem slíka í viðskiptum þeirra með verðbréf ÍAV. Með því að „láta þetta undir höfuð leggjast var ekki tryggt jafnræði þeirra, sem tóku þátt í útboðinu eða réttra samskiptareglna gætt. Verður því að fallast á með áfrýjendum að framkvæmd útboðs stefnda á nefndum eignarhlut í Íslenskum aðalverktökum hafi verið ólögmæt.“

EAV átti ekki hæsta tilboðið

Eftir að málinu hafði verið áfrýjað til Hæstaréttar fengu stefnendur dómkvadda matsmenn til að meta tilboðin sem höfðu verið gerð í hlutinn. Matsmennirnir skiluðu ítarlegu mati þann 26. október 2007. Í niðurstöðu þeirra er verðið sem boðið var í hlutinn látið vega 65 prósent en aðrir þættir á bilinu fimm til 15 prósent. Í því mati var tilboð Jarðboranna, eins bjóðandans sem fékk ekki að kaupa, metið hæst. Kaupendurnir, EAV, áttu því ekki hæsta tilboðið þegar þeir fengu að kaupa ÍAV.