Aðalmeðferðin í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, er söguleg fyrir margra hluta sakir.

Baldri er gefið að sök að hafa selt hlutabréf sín í Landsbankanum 17. og 18. september 2008 fyrir um 192 milljónir króna er hann bjó yfir innherjaupplýsingum um stöðu Landsbankans. Ákæran tekur einnig til brota í opinberu starfi en um ákæruatriðin, sem skiptast í sex þætti, er ítarlega fjallað í Viðskiptablaðinu í dag. Baldur neitar staðfastlega sök í málinu.

Aldrei inn á borð Hæstaréttar

Fá dæmi, ef þá nokkur, eru um að nær allir æðstu yfirmenn íslenskrar stjórnsýslu er lítur að efnahagsmálum, á þeim tíma er málsatvik áttu sér stað, séu kallaðir fyrir dómara til þess að svara spurningum saksóknara og verjanda. Málið er enda nær einstakt en aðeins einu sinni áður hefur verið ákært fyrir innherjasvik en það var árið 2001. Þá var Gunnar Scheving Thorsteinsson sýknaður í héraði í máli er tengdist viðskiptum með hlutabréf í Skeljungi og kom málið aldrei til kasta Hæstaréttar. Komi málið inn á borð Hæstaréttar, sem verður að teljast líklegt, verður það í fyrsta sinn sem rétturinn fellir dóm í innherjasvikamáli.

Aðalmeðferðin heldur áfram á morgun. Á meðal þeirra sem áætlað er að muni koma fyrir dóminn eru Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabanka Íslands, Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Þórður Örlygsson, regluvörður Landsbankans fyrir hrun, og Gunnar Viðar, fyrrverandi yfirmaður lögfræðiráðgjafar bankans.

Beint úr orlofi

Fyrir dóminn í gær kom fyrst Jónína S. Lárusdóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu. Jónína kom úr fæðingarorlofi 1. ágúst 2008 en hún fór í orlof 1. desember 2007. Það má því með sanni segja að hún hafi komið beint í erfiða vinnu úr orlofi enda björgunaraðgerðir stjórnvalda þá í fullum gangi. Hún tók þá þegar sæti í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálstöðugleika.

Fundargerðir þess hóps, sem Tryggvi Pálsson ritaði, eru grundvallaratriði í málinu. Samkvæmt ákæru eru horft sérstaklega til tímabilsins frá 22. júlí til 16. september.

Jónína sagðist fyrir dómi hafa talið fundargerðirnar af fundum hópsins til mikilla trúnaðargagna. Hún geymdi þær inn í læstum skáp þessa vegna. Að öðru leyti staðfesti hún efni þeirra fundargerða sem hún var spurð út í, en sagðist hafa gert athugasemdir við sumt sem eftir henni hefði verið haft að fundum loknum.

Þá sagði hún að ástæða þess að Landsbankamenn hefðu barist gegn því að færa Icesave-reikningana í dótturfélag erlendis hefði verið sú að þá hefði bankinn getað farið í þrot þar sem lausafjárstýring bankans á Íslandi var háð innstæðum á Icesave-reikningum erlendis. Lánasamningar hefðu gjaldfallið og bankinn fallið ef þetta hefði verið gert. Sagði hún kröfur Breta og Hollendinga um færslu á Icesave yfir í dótturfélög hefðu farið stigmagnandi fram eftir árinu 2008.

Einstakir atburðir

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, var spurður út í fundargerðirnar og staðfesti hann efni þeirra. Hann tók þó fram að það væri langt um liðið en hann teldi fundargerðirnar vera í takt við hans upplifun af fundunum.

Hann var m.a. spurður út í stöðu Tryggingasjóðsins íslenska á þessum tíma. Hann lét m.a. þau orð falla á fundi 31. Júlí 2008 að sjóðurinn gæti aðeins þjónað hlutverki sínu ef Sparisjóður Mýrasýslu félli en ekki meira en það. Jónas sagði innstæðutryggingakerfin í allri Evrópu hafi verið byggð upp með þessum hætti, að aðeins um 1% innstæðna væri í sjóðnum. Þannig hafi sjóðurinn á Íslandi verið byggður upp á grundvelli sömu laga og reglna og sjóðir erlendis.

Hann rakti enn fremur að ómögulegt hefði verið að sjá fyrir þá atburðarás sem fór af stað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eftir fall Lehman Brothers 15. september. Þannig sagði hann að næsti fundur samráðshóps um fjármálstöðugleika, eftir þann fund sem fór fram 16. september, hefði verið áætlaður 2. október. Sem sýndi hversu ófyrirsjáanlegir atburðirnir voru.

Bolli ákveðinn

Bolli Þór Bollason, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og formaður í fyrrnefndum samráðshópi, sagði Landsbankamenn hafa „þráast við“ að skilja þungann í orðum Breta og Hollendinga um færslu á Icesave í dótturfélag. Sagði hann það skiljanlegt eftir á, enda hefði bankinn notað Icesave-peningana til að fjármagna ónýtan rekstur bankans á Íslandi.

Hann sagði að Baldur hefði hringt í sig eftir að hann seldi bréfin og tilkynnt honum um það. Bolli sagðist muna sérstaklega eftir þessu, þar sem hann hefði lagst gegn sölunni ef hann hefði fengi að heyra af þessu fyrir söluna. Baldur hafði aðra sögu að segja en hann sagðist hafa hringt í Bolla áður en hann seldi.

Bolli sagðist enn fremur líta svo á að hann hefði ekki getað stundað hlutabréfaviðskipti samhliða störfum sínum í samráðshópnum. Ef það væri ekki ólöglegt, þá a.m.k. ósiðlegt. Hann upplýsti jafnframt um að hann hefði átt bréf í íslensku bönkunum en ekki talið sig geta selt þau.

Ljóst má telja að frásögn Bolla um þessi atriði hefur mikla þýðingu fyrir málið þar sem hann stýrði samráðshópnum og leit á Baldur sem sinn staðgengil í honum.

Áslaug Árnadóttir, sem gegndi stöðu ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu um tíma, kom einnig fyrir dóminn og staðfesti efni fundargerðanna sem undir hana voru bornar.

Tryggvi lykilmaður í málinu

Vitnisburður Tryggva Pálssonar fyrir dómi mun hafa mikla þýðingu fyrir málið. Hann ritaði fundargerðirnar á fundum samráðshópsins sem eru lykilatriði í málinu. Engar hljóðupptökur eru til af fundunum og því stuðst við fundargerðir Tryggva.

Eftir fundi sendi hann þær til fundarmanna sem gerðu athugasemdir áður en þær voru síðan settar í endanlegt form.

Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, mun koma fyrir dóminn að líkindum í þar næstu viku. Til stóð að hann gæfi skýrslu símleiðis en dómarinn féllst ekki á það og sagði að bæði hann og Ingimundur, sem búsettir eru í Kanada og Noregi, þyrftu að koma fyrir dóminn.