Búast má við því að efnahagsbrotadeild bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) gefi út allt að 10 ákærur, hugsanlega fleiri, vegna innherjasvika verðbréfasala og stjórnenda vogunarsjóða á Wall Street en í flestum tilvikum tengjast brotin með einhverjum hætti brotum vogunarsjóðsstjórans Raj Rajaratnam sem handtekinn var fyrir helgi.

Milljarðamæringurinn Raj Rajaratnam var sem fyrr segir handtekinn fyrir helgi. Rajaratnam, sem árið 1997 stofnaði vogunarsjóðinn Galleon Group, er sakaður um að hafa nýtt sér ólöglegar innherjaupplýsingar og hagnast um allt að 20 milljarða Bandaríkjadali frá árinu 2006 til dagsins í dag. Málið hefur valdið miklu fjaðrafoki á Wall Street, þó hlutabréf hafi hækkað í gærkvöldi, en sem fyrr segir telja fjölmiðlar vestanhafs að í uppsiglingu sé opinberun á einu stærsta svikamál innherjaviðskipta á Wall Street í manna minnum.

Bloomberg fréttaveitan greindi frá því í gærkvöldi að rannsóknin sem nú stendur yfir, og leiddi m.a. til handtöku Rajaratnam, hafi staðið yfir í rúm tvö ár en hér sé um eina leynilegustu lögregluaðgerð að ræða sem framkvæmd hefur verið á Wall Street. Bloomberg telur sig hafa heimildir fyrir því að þeir sem ákærðir verði séu flestir stjórnendur eða hátt settir starfsmenn vogunarsjóða. Nöfn þeirra verða þó ekki gefin upp fyrr en þeim hefur verið birt ákæra.

Handtakan hluti af stærri aðgerð, átti ekki að handtaka hann strax

Fram kemur að handtakan á Rajaratnam sé þó einungis hluti af mun stærri aðgerð, ekki hafi staðið til að handataka hann strax en eftir að yfirvöld komust að því að hann hefði keypt sér flugmiða, aðra leið, til Lundúna þann 16. október hafi lögreglan ákveðið að láta til skara skríða. Ásamt Rajaratnam voru fimm aðrir handteknir. Hvorki FBI né bandaríska dómsmálaráðuneytið hafa viljað láta hafa nokkuð eftir sér annað en að málið sé í rannsókn og fjölmiðlar verði upplýstir síðar meir.

Bloomberg fréttaveitan segir þó að hinir handteknu séu grunaðir um að hafa hagnast eftir að hafa fengið [ólöglegar] innherjaupplýsingar úr ýmsum áttum, s.s. öðrum vogunarsjóðum, matsfyrirtækjum, óháðum greiningaraðilum (sem hafa skuldbundið sig til að meðhöndla sumar greiningar sem trúnaðarmál) og starfsmönnum fyrirtækja á borð við tölvuframleiðendurna Intel og IBM en einnig ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Co. Nú þegar hefur einn æðsti stjórnandi IBM, Robert Moffat, verið sendur í leyfi á meðan rannsókn stendur yfir.

Gaf Tamil tígrum 5 milljónir dala

Auðæfi Rajaratnam, sem fæddur er á Sri Lanka, er talinn nema um 1,3 milljörðum dala sem gerir hann að 559. ríkasta manni heims samkvæmt Forbes tímaritinu. Galleon var um tíma einn af tíu stærstu vogunarsjóðum heims, en velta sjóðsins nam um 7 milljörðum dala árið 2008.

Til viðbótar má taka fram að málið hefur líka valdið uppnámi á Sri Lanka því komið hefur í ljós að Rajaratnam hefur styrkst aðskilnaðarhópa Tamil tígra um allt að 5 milljónir dala.