Alþingi hefur samþykkt að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna kostnaðar við kvikmyndagerð hér á landi úr 14% í 20%. Iðnaðarnefnd og fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins eru ósammála um áhrifin á rekstur ríkissjóðs.

Lögin, sem samþykkt voru mótatkvæðalaust með 41 atkvæði, öðlast þegar gildi. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að markmiðið með breytingunum sé að jafna samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart sambærilegri starfsemi í öðrum ríkjum, ekki síst öðrum Evrópuríkjum, t.d. Írlandi.

Lögin tímabundin til 2011

Síðasta breyting á endurgreiðsluhlutfallinu var gerð með lagasetningu árið 2006 þegar hlutfallið var hækkað úr 12% í 14%. Lögin voru þá sett tímabundið til ársins 2011 og hefur því ákvæði ekki verið breytt. Vonir stóðu til þess að kvikmyndaverkefnum mundi fjölga hér á landi með hækkun hlutfallsins árið 2006, en það hefur ekki gengið eftir. Þá hafa erlendu verkefnin sem fengið hafa endurgreiðslu verið fá og ekki stór í sniðum frá árinu 2006.

Hér má sjá hvernig endurgreiðslurnar hafa þróast á milli ára:

Fjöldi styrkja og heildarupphæð í millj. kr.

2001            2      13,1

2002            8      81,8

2003            9      42,8

2004            7      94,3

2005            9      307,1

2006            5      165,2

2007            7      187,1

2008           12      89,5

Samtals 59 980,8

Í athugasemdum við frumvarpið segir að töluverð samkeppni sé á milli landa, fylkja og borga um allan heim um að fá erlenda framleiðendur til að taka upp kvikmyndir, sjónvarpsefni og fleria myndefni, svo sem auglýsingar og tónlistarmyndbönd. Verkefni af þessum toga séu atvinnuskapandi, gjaldeyrisskapandi og landið öðlist kynningu erlendis sem geti skilað sér í jákvæðari ímynd og hugsanlega í auknum fjölda ferðamanna ef vel takist til.

Einfalt kerfi

Endurgreiðslukerfið hér á landi hefur það umfram ýmis önnur kerfi að vera einfalt, auk þess að hafa þann kost fyrir erlenda aðila að ekki er gerð krafa um að íslenskur aðili tengist verkefninu. Íslenskir aðilar hafa þó alltaf tengst verkefnunum með einhverjum hætti. Þrátt fyrir kosti íslenska kerfisins hefur það ekki dugað til að laða erlenda kvikmyndaframleiðendur til landsins nema í mjög litlum mæli undanfarin ár og álit margra í kvikmyndaiðnaðinum hér á landi er að þetta stafi af því að í 14% hafi hlutfallið enn verið of lágt í samanburði við önnur lönd.

Bætist við lækkun krónunnar að sögn fjárlagaskrifstofu

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er bent á að þessi aukna endurgreiðsla komi til viðbótar 65% lækkun krónunnar á síðustu tveimur árum. Fjárlagaskrifstofan segir að fjárheimild til endurgreiðslu þurfi að hækka úr 125 milljónum króna í 157 milljónir króna á ári vegna hækkunar hlutfallsins í 20% ef umfang kvikmyndagerðar verði svipað og verið hefur frá 2006. Aukist umfangið verði aukningin að sama skapi meiri. Ekki sé gert ráð fyrir þessu í fjárlögum þessa árs eða í áætluðum útgjöldum næstu fjögurra ára. Fjárlaganefnd bendir á mikinn áætlaðan halla af rekstri ríkissjóðs og segir að viðbótarútgjöld vegna endurgreiðslnanna muni að óbreyttu þurfa að fjármagna með lántökum.

Iðnaðarnefnd ósammála túlkun fjárlaganefndar

Í nefndaráliti iðnaðarnefndar, sem allir nefndarmenn rituðu undir,  sumir þó með fyrirvara, kemur fram sú skoðun að fjárlagaskrifstofa komist óheppilega að orði. Hallarekstur ríkisins aukist ekki vegna þessara útgjalda því að skatttekjur muni aukast með aukinni veltu vegna verkefnanna. Ríkissjóður ætti að mati nefndarinnar að hafa fengið til sín stærstan hluta skatttekna vegna framleiðslunnar þegar til útborgunar kemur.

Tengd skjöl:

Frumvarp um hækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar

Nefndarálit iðnaðarnefndar